135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[12:23]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að vera hér með okkur og taka þátt í umræðunni. En ég vil biðja hæstv. forsætisráðherra að skýra mál sitt betur, útskýra aðeins betur fyrir okkur þau orð sem hann lét hér falla þar sem hann efaðist um að allir flokkar bæru hag sjúklinga fyrir brjósti.

Ég vil a.m.k. að það komi alveg skýrt fram að ég tel að við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði vinnum í öllum okkar málum, stefnumótun og málum hér inni á Alþingi, með það að leiðarljósi að bera hag sjúklinga fyrir brjósti. Við gerum það líka með því að standa hérna vörð um þá þjónustu sem hið opinbera veitir og við teljum okkur líka gera það með því að standa vörð um það að grunnþjónustan verði áfram í opinberum rekstri.

Við höfum aldrei mótmælt því kerfi sem við búum við, þessu blandaða kerfi. En við mótmælum og viljum þess vegna reisa hér varnarmúra gegn því að það verði farið inn á þá braut að hér verði frekari einkarekstur á forsendu hagnaðar og gróða. Við viljum ekki að það sé verið að veita fé til heilbrigðisþjónustu í auknum mæli á forsendum hagnaðar og gróða, að heilbrigðisþjónustan sem í eðli sínu mun aukast, sérstaklega öldrunarþjónustan, verði rekin sem bisness í framtíðinni. Við viljum reyna að halda utan um þá blönduðu flóru sem við höfum í dag en ekki (Forseti hringir.) auka vægi þessa þáttar.