135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

vátryggingarsamningar.

163. mál
[14:48]
Hlusta

Frsm. meiri hluta viðskn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir spurningar frá hv. þingmanni. Í fyrsta lagi spurði hann hvort þetta neikvæða úrval hefði verið rætt í nefndinni. Eðli þessara trygginga var rætt og það kom fram að hér eru ekki á ferðinni hóptryggingar heldur einstaklingstryggingar og tekið mið af áhættu af viðkomandi einstaklingi, þ.e. af lífsstíl viðkomandi einstaklings, sjúkdómasögu og öðru slíku. Það er auðvitað eðli trygginga að tryggingafélög reyna að lágmarka áhættu sína með því að greina áhættuna eins og hægt er.

Þetta hlýtur að gilda líka í hina áttina, tryggingafélögin dreifa áhættunni með því að hafa stóran pott einstaklinga sem fá slíkar tryggingar. Þannig held ég að báðir aðilar, hvort sem litið er til tryggingafélaganna eða vátryggingartaka, taki vissan hluta af áhættunni.

Varðandi að það sé erfitt að fá samþykki er tekið sérstaklega tillit til þess í frumvarpinu. Í 1. mgr. er sagt að það sé með sanngirni hægt að ætlast til að menn geti aflað slíks samþykkis. Ef viðkomandi ættingi er út úr heiminum eða er ekki finnanlegur eða hvernig sem það er tekur frumvarpið beinlínis á því og það er tekið tillit til slíkra aðstæðna. Það eru ekki settar hér óraunhæfar kröfur á vátryggingartaka til að afla sér slíks samþykkis.

Varðandi endurtryggingarþáttinn, auðvitað skiptir hann máli. Við fengum þær upplýsingar að t.d. hin erlendu vátryggingafélög, miðlarafélög sem hafa verið hér, sætta sig við þá leið sem hér er farin. Þau telja ekki að hagsmunir sínir gagnvart endurtryggingum séu settir í uppnám með þessari leið. Ég tel að í því sambandi þurfi ekkert að óttast.

Varðandi það að banna svona tryggingar, ég tel að þær séu nauðsynlegar. Þær hafa ákveðna kosti þannig og ég er ekki hlynntur banni ef spurningin var hvort ég vildi banna þær. Við gerum þær raunhæfar en gætum samt að (Forseti hringir.) ákveðnum meginatriðum og prinsippum sem lúta að persónurétti þriðja aðila.