135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

skráning og mat fasteigna.

289. mál
[16:23]
Hlusta

Frsm. efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna, með síðari breytingum, frá efnahags- og skattanefnd en það er að finna á þingskjali 492. Þar kemur fram hvaða gestir komu til nefndarinnar og eins tilgangur frumvarpsins og hlutverk Fasteignamatsins.

Um aldamótin síðustu ákvað löggjafinn að fjórfalda umsýslugjaldið tímabundið og verja því til uppbyggingar á Landskrá fasteigna. Að lokinni þeirri uppbyggingu skyldi leitað annarra tekjustofna.

Alþingi hefur frá þeim tíma oft þurft að taka afstöðu til gjaldsins og hafa þá komið fram efasemdir um réttmæti þess að láta húseigendur eina bera kostnað af Landskrá fasteigna. Þingið ákvað að framlengja gjaldið, fyrst fyrir árin 2005 og 2006 og svo fyrir árið 2007 í ljósi þess að um væri að ræða óklárað verkefni og vegna þeirra brýnu þjóðfélagslegu þarfa sem skránni er ætlað að uppfylla. Um þetta má m.a. vísa til álits meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar frá 133. löggjafarþingi á þingskjali 543.

Nú þegar Landskrá fasteigna er komin í fullan rekstur gerir frumvarpið ráð fyrir að hið sérstaka umsýslugjald verði lagt niður en þess í stað komi sérstakt brunabótamatsgjald sem húseigendur beri kostnað af. Í athugasemdum kemur fram að gjaldið ákvarðist með hliðsjón af því hvert hlutfall kostnaðar brunabótamats er af heildarútgjöldum Fasteignamats ríkisins.

Heildarútgjöld eru áætluð 715 millj. kr. fyrir árið 2007. Í úttekt Ríkisendurskoðunar frá 12. desember 2006 kemur fram að starfsemi Fasteignamats ríkisins sé svo samofin rekstri Landskrár fasteigna að þar verði ekki skilið á milli. Húseigendur munu samkvæmt því bera kostnað af rekstri Landskrár fasteigna verði frumvarpið samþykkt.

Í annan stað gerir frumvarpið ráð fyrir að afnotagjöld sveitarfélaga vegna Landskrár fasteigna verði lögbundin en fram að þessu hafa þau verið ákveðin í gjaldskrá sem fjármálaráðherra setur. Er lagt til að gjöldin taki sem fyrr mið af heildarfasteignamati innan viðkomandi sveitarfélags en að hlutfall álagningar hækki frá því sem verið hefur. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur mótmælt breytingunni og bendir m.a. á að hækkun á framlagi sveitarfélaga sé ekki nægilega vel ígrunduð og gangi gegn sjónarmiðum sem vísað er til í áliti félagsmálanefndar í tengslum við afgreiðslu laga nr. 140/2005.

Með hliðsjón af framangreindu leggur nefndin til að a- og b-liður 1. efnismgr. 1. gr. frumvarpsins komi inn í lög um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001, sem bráðabirgðaákvæði og að það gildi í eitt ár frá 1. janúar 2008. Eftir það leggist ekkert brunabótamatsgjald á húseigendur og sveitarfélög greiði gjöld í samræmi við þá þjónustu sem þeim er veitt.

Nefndin telur eðlilegt að leitað verði leiða sem tryggi að Fasteignamat ríkisins geti borið sig sjálft með tekjum af þjónustu við aðila sem helst nota upplýsingar úr skránni til að mynda í þágu atvinnurekstrar, til álagningar opinberra gjalda eða til að skrá hagsmuni sína. Ýmist verði gerðir samningar um stór verkefni, t.d. við Samband íslenskra sveitarfélaga, eða sett verði reglugerð um þjónustugjöld.

Þá leggur nefndin til að lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, verði breytt þannig að tekjur af gjaldi sem nú er innheimt á grundvelli 25. tölul. 14. gr. laganna, Vélrænar fyrirspurnir úr þinglýsingabókum, renni til Fasteignamats ríkisins í formi þjónustugjalds. Er sú breyting hugsuð til að vega upp á móti skerðingu sem leiðir af niðurfellingu sérstaks brunabótamatsgjalds á húseigendur.

Nefndin telur koma til greina að hugað verði að framangreindum atriðum samfara vinnu innan ráðuneytisins sem vísað er til í almennum athugasemdum frumvarpsins og snýr að bættri framkvæmd við skráningu og mat fasteigna. Nefndin leggur einnig til að skoðað verði hvernig nýta megi best þá sérþekkingu sem orðið hefur til við uppbyggingu Landskrár fasteigna. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem getið er um á þskj. 492.

Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Hv. þm. Grétar Mar Jónsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Undir nefndarálitið rita auk mín hv. þm. Ellert B. Schram, Ögmundur Jónasson, Bjarni Benediktsson, Ólöf Nordal, Lúðvík Bergvinsson, Gunnar Svavarsson, með fyrirvara, og Magnús Stefánsson, með fyrirvara