135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

Sultartangavirkjun.

[14:00]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Í nútímasamfélagi liggja upplýsingar mjög á lausu og mjög auðvelt fyrir ráðuneyti að ná sér í upplýsingar um hvaðeina. Auðvitað höfum við fylgst með þessu innan ráðuneytisins og átt um þetta samtöl. Við vitum hver staðan er. Við vitum með hvaða hætti er fyrirhugað að grípa til ráðstafana til að draga úr líkum á því að þetta gerist aftur.

Hv. þingmaður orðaði það svo að ég hefði kallað fyrir mig Landsvirkjun. Það var ekki þannig. Iðnaðarráðherra hefur ekki kallað fyrir sig Landsvirkjun enda fer annar ráðherra með eignarhaldið þar þótt það sé eftir atvikum prýðilegt samband milli ráðuneytisins og Landsvirkjunar.

Hins vegar eigum við í ráðuneytinu regluleg samtöl við ýmsar stofnanir. Ein af þeim stofnunum sem mér er mjög annt um og tel ákaflega góða og vil gjarnan ráðgast reglulega við um stöðu raforkudreifikerfisins er Landsnet. Fundurinn á morgun er reglulegur samráðsfundur í tilefni af ákveðnum áformum þeirra (Forseti hringir.) og þar verður þetta tekið upp að mínu frumkvæði.