135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

samvinna um öryggis- og björgunarmál milli Vestur-Norðurlandanna.

274. mál
[17:12]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka þessa tillögu sem hér er fram komin og þakka góð orð hv. síðasta ræðumanns í garð okkar í Íslandsdeild Norðurlandaráðs. Það náðist um það alger samstaða innan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs að leggja til við Norðurlandaráð að öryggismál á Norður-Atlantshafi yrðu tekin á dagskrá í norrænni samvinnu. Niðurstaða forsætisnefndarfundar Norðurlandaráðs sem haldinn var í Reykjavík 14. desember var sú að þetta efni yrði tekið á dagskrá á ráðstefnu sem til stendur að haldin verði á þessu ári um samfélagslegt öryggi á Norðurlöndum. Jafnframt var lagt fyrir norrænu ráðherranefndina að setja skýrslu fram um þetta efni fyrir Norðurlandaráðsþing í haust.

Ákveðið var jafnframt að öryggismál á norðurslóðum yrðu til langframa umfjöllunarefni á vettvangi norrænnar samvinnu og það tel ég hafa verið merkilegan áfanga. Við búum við breyttar aðstæður vegna loftslagsbreytinga og brotthvarfs varnarliðsins frá Keflavíkurflugvelli. Atlantshafið allt er að opnast með öðrum hætti en áður var en björgunar- og öryggisviðbúnaður er ekki eins og áður var. Það er mikilvægt að taka á þessu máli og ég vek athygli á því að þessi atriði hafa verið færð á umræðustig af hálfu núverandi ríkisstjórnar. Hæstv. utanríkisráðherra hefur ítrekað tekið þessi mál upp við kollega sína. Sama hefur hæstv. dómsmálaráðherra gert og leitað sérstaklega eftir samstarfi við norræna starfsbræður og einkanlega hinn norska.

Það er ljóst að aukin áhersla verður af hálfu Atlantshafsbandalagsins á öryggi á norðurslóðum og Norður-Atlantshafi á næstu árum. Það er a.m.k. mín trú. En það er mikilvægt að við Íslendingar séum í fremstu röð ásamt nágrönnum okkar við að draga athyglina hingað norður eftir svo að félagar okkar á hinum Norðurlöndunum og í Atlantshafsbandalaginu gæti þessa stóra hafsvæðis og öryggis á því.

Ég tel sérstaklega mikilvægt í þessu efni að við einskorðum okkur ekki við samstarf með vinaþjóðum okkar á Grænlandi og Færeyjum heldur tökum Norðmenn einnig að borðinu. Ég tel mikilvægt að þetta sé samstarf sem taki til Grænlands og Færeyja, Danmerkur fyrir þeirra hönd, og svo aftur Norðmanna, að við drögum að borðinu allar þjóðir sem raunverulegra hagsmuna eiga að gæta og ræðum þetta líka á norrænum vettvangi sem hluta af samnorrænum áherslum til að bregðast við breyttum aðstæðum.

Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð en tel fulla ástæðu til að fara vandlega yfir þessa tillögu. Ég vonast til að koma í skynsamlegt form mögulegri ályktun frá Alþingi um þetta efni og eiga um það gott samstarf við þá ráðherra sem með málaflokkana fara.