135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

272. mál
[17:46]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það er dálítið sorglegt þegar maður ræðir þessi mál að menn skuli stanslaust snúa út úr því sem verið er að segja. Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur látið það álit frá sér fara að mannréttindabrot séu á Íslandi, þau liggi í því að verið sé að mismuna mönnum um aðgang að auðlindinni, sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, þ.e. fiskinum í sjónum. Þegar aukið er á misvægi og óréttlæti varðandi aðgang að fiskimiðunum þá erum við ekki í góðum málum, íslensk þjóð. Þeir menn sem þurftu að fara í mál við ríkið og voru dæmdir sekir í undirrétti og í Hæstarétti, fóru með málið fyrir mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna. Þeir fengu þar raunverulega uppreisn æru því að mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna telur að brotið hafi verið á þessum mönnum og að þeir eigi rétt á skaðabótum. Ef við, íslenskir stjórnmálamenn, ætlum að standa okkur í stykkinu og leiðrétta þetta mannréttindabrot er kominn skaðabótaréttur, ekki bara til handa þessum tveimur ágætu mönnum sem höfðu kjark og þor til að berjast áfram ásamt lögfræðingi þeirra, heldur handa öllum sjómönnum og fiskvinnslufólki sem getur sýnt fram á að því hafi verið mismunað. Það fólk á rétt á skaðabótum frá íslenska ríkinu og ekki einhverjar fáar krónur. Það geta verið stórar upphæðir.