135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

útlendingar.

337. mál
[16:32]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum varðandi gildi Schengen-samstarfsins og ég var að velta upp þeirri spurningu og þeim hugmyndum hvaða þýðingu það hefði fyrir okkur og hvort það væri réttara fyrir okkur að fara svipaða leið og Englendingar og Írar hafa gert. Ég hef fengið svar hæstv. dómsmálaráðherra um það atriði, hvað hann telur að skipti máli í því sambandi og þarf ekkert að orðlengja það.

Varðandi það að hér sé um einhvern misskilning að ræða eða menn skilji ekki það sem um er að ræða er það nú einu sinni þannig að í 5. gr. frumvarpsins er lagt til að 2. mgr. 8. gr. laganna verði breytt. Talið er upp tæmandi hvaða aðilar það eru sem geta dvalist hér án dvalarleyfis. Síðan er ákvæði varðandi 23. gr. um komu og dvöl EES-borgara. Að sjálfsögðu liggur þetta fyrir en það er samt sem áður hægt að velta því fyrir sér með hvaða hætti við högum spurningunni um það hvaða skilyrði menn þurfi að uppfylla varðandi dvalarleyfið.