135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

útrásarverkefni Landsvirkjunar og Rariks.

110. mál
[14:10]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur fyrir að vekja máls á þessu máli því að það er staðreynd að þarsíðasti borgarstjórnarmeirihluti sprakk á svokölluðu REI-máli. Það var ekki nóg með að sá meiri hluti tvístraðist heldur sprakk borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins líka í loft upp og breytti allt í einu um stefnu í þessum mikilvægu málum sem snerta almannahagsmuni og þjóðarhag.

En nú kemur hins vegar í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn er í landsstjórninni á kafi í útrásarverkefnum á meðan að forsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins í þeirra höfuðvígi, Reykjavík, segja að ríkið eða opinberir aðilar eigi ekki að standa í áhættusömum útrásarverkefnum.

Það er mikilvægt fyrir okkur að fá að vita hver stefna Sjálfstæðisflokksins er, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er aftur kominn í meiri hluta í höfuðborg Íslands og fer með forustu í ríkisstjórn Íslands. Það gengur einfaldlega (Forseti hringir.) ekki, hæstv. forseti, að þessi stærsti stjórnmálaflokkur landsins skuli hafa tvær stefnur í þessu stóra máli.