135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[12:13]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu um Evrópumál þar sem farið var vítt yfir sviðið og m.a. rök með eða á móti Evrópusambandsaðild.

Það sem ég hef átt erfitt með að átta mig á er stefna Framsóknarflokksins til aðildar að Evrópusambandinu. Hv. þingmaður sagði hér í hreinskilni að skiptar skoðanir væru innan Framsóknarflokksins um hvort Ísland ætti að gerast aðili að Evrópusambandinu eða ekki. Ég get alveg tekið undir að það hafa greinilega verið skiptar skoðanir innan þess flokks.

Fyrir mér sem áhorfanda utan frá verð ég nú að segja að stefnan hefur verið býsna þokukennd á þeim bænum. Þrátt fyrir að ræða hv. þingmanns hafi að mörgu leyti verið ágæt, fékk ég nú ekki alveg botn í hver stefna Framsóknarflokksins til aðildar Íslands að Evrópusambandinu er.

Ég minni á að Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, daðraði lengi við Evrópusambandsaðild og gekk meira að segja svo langt að spá því á viðskiptaþingi að Ísland yrði orðinn aðili að Evrópusambandinu árið 2015. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir hefur verið talsmaður sömu sjónarmiða og hann.

Aftur á móti hefur núverandi formaður Framsóknarflokksins, Guðni Ágústsson, algjörlega tekið fyrir slíka aðild og í sama streng hefur hv. þm. Bjarni Harðarson tekið. Þannig að ég hlýt að spyrja: Hver er stefna Framsóknarflokksins varðandi hvort Ísland eigi að gerast aðili að Evrópusambandinu og hver er stefna hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur til málsins? Er hún þeirrar skoðunar að Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu? Ég veit hver mín skoðun er. (Forseti hringir.) Hún er skýr en ég gat ekki alveg áttað mig á stefnu hv. þingmanns.