135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[16:51]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir sem hafa hér tekið til máls fagna því að við erum að ræða Evrópumálin. Ég hef fylgst með umræðunni í allan dag frá því að hún hófst og hún hefur verið mjög góð og mikilvæg. Hér hafa menn skipst á skoðunum og það er mikilvæg umræða sem hefur komið inn í þingsali í dag. Það ber að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að hafa haft frumkvæði að því að taka Evrópumálin út úr annarri utanríkismálaumræðu og ræða málin sér á Alþingi. Ég er alveg sannfærð um að það er ekki aðeins það að við munum árlega ræða hér skýrslu utanríkisráðherra um Evrópumál heldur mun Evrópuumræða aukast í þinginu. Hún mun aukast í þingnefndunum og hún mun aukast í þingsal. Það er ég sannfærð um.

Mér finnst skýrslan sem liggur fyrir og við ræðum mjög gagnleg og fróðleg og hún er mikilvæg samantekt um þessi mál. Við erum búin að vera hluti af EES-samningnum í 14 ár og ættum að læra ýmislegt af reynslunni af því og ræða hér í þingsölum.

Ég get upplýst það hér að á sínum tíma hafði ég efasemdir um EES-samninginn. Ég sat reyndar ekki þá á þingi en taldi að það ætti frekar að fara jafnvel í tvíhliða samning og jafnvel að þessi samningur stæðist ekki stjórnarskrána. En ég er fyrir löngu búin að skipta um skoðun á því og allar efasemdir um samninginn eru alveg burtu úr mínum huga því að ég sé hverju hann hefur skilað okkur. En ég vil taka undir orð þeirra sem hafa lagt áherslu á að við þurfum að vera á varðbergi og við þurfum að fylgjast með vinnunni í Evrópu þegar farið er að undirbúa löggjöf þar eins og hæstv. utanríkisráðherra lagði ríka áherslu á í máli sínu í morgun því að við verðum að koma snemma að málum ef við ætlum að hafa áhrif á þá lagasetningu sem þaðan kemur og mun síðan rata hingað inn í lagasetningu í þinginu.

Mig langar að nefna í því sambandi löggjöf sem kom inn í þingið fyrir nokkrum árum sem ég tel að við hefðum átt að geta breytt á byrjunarstigi ef við hefðum verið vakandi og ef við hefðum verið með mannskap til að fylgjast með því sem er að gerast hjá Evrópusambandinu. Það eru raforkulögin. Þjóðir sem töldu sig ekki heyra undir þennan sameiginlega raforkumarkað fengu undanþágu og auðvitað hefðum við átt að huga að því á sínum tíma en gerðum það ekki. Þess vegna kannski sitjum við uppi með raforkulög sem margir telja að hafi íþyngt okkur og jafnvel hækkað raforkureikningana.

Það er alveg ljóst að þingnefndir á Alþingi eiga erindi við Evrópuþingnefndir og ég hef verið mjög undrandi á því í gegnum tíðina — ég er nú búin að sitja hér á annan áratug, í tæp þrettán ár — þá hef ég verið undrandi á því hvað það hefur verið lítill skilningur á því í þinginu eða í yfirstjórn þingsins að þingmenn þurfi að kynna sér málefni á Evrópuþinginu og kynna sér hvað er á döfinni í málefnum sem þá varðar inni í þinginu.

Ég minnist þess að fyrir nokkrum árum tóku nokkrir þingmenn sig saman og fóru til Brussel til að kynna sér hvað væri á döfinni í þeirra málaflokkum, það var allsherjarnefnd, heilbrigðisnefnd og félagsmálanefnd. Það var ferð sem þingmennirnir borguðu að miklum hluta úr eigin vasa vegna þess að það var ekki skilningur á þörfinni fyrir því hér í þinginu. Sem betur fer er orðin viðhorfsbreyting og í forsætisnefnd þeirri sem nú situr eru önnur viðhorf uppi. Ég vil sérstaklega hrósa hæstv. forseta þingsins Sturlu Böðvarssyni fyrir það að hann hefur sýnt mikla víðsýni og skilning á því að þingmenn þurfi að fá stuðning til þess að kynna sér þau mál sem eru uppi í Evrópu og koma snemma að þeirri lagasetningu sem þar er.

Það er líka ljóst — og kom það fram í ræðu hæstv. ráðherra hér fyrr í morgun — að við getum haft veruleg áhrif á lagasetningu eins og dæmin um umræðuna um lögin sem varða málefni hafsins sýna og getið er um í skýrslunni. Þess vegna er svo mikilvægt að þingmenn sinni þessum málum og komi að þeirri umræðu. Ég áfellist í rauninni forustu þingsins á undanförnum árum fyrir skilningsleysi í þessum efnum.

Þar sem sú sem hér stendur á sæti í bæði forsætisnefnd og utanríkismálanefnd þingsins vil ég geta þess að í utanríkismálanefnd hafa þessi mál komið til umræðu og við höfum kynnt okkur hvernig norska þingið, norska Stórþingið, sinnir þessum málum og höfum nokkuð horft til þeirra. Háttvirtur formaður utanríkismálanefndar Bjarni Benediktsson nefndi í sinni ræðu í morgun það minnisblað sem við höfum verið að fara yfir og hann vitnaði í um hvernig norsku þingnefndirnar sinna þessum tengslum, en þar eru mikil tengsl einmitt við Evrópu og þeir sinna Evrópusamstarfinu vel. Einnig kom utanríkismálanefnd norska þingsins hingað og upplýsti okkur og ræddi við háttvirta þingmenn í utanríkismálanefnd um þessi mál. Það var mjög gagnlegt.

Einnig vil ég geta þess áður en ég lýk máli mínu að íslenskir þingmenn hafa verið að vinna mjög merkt starf hvað varðar þessi mál. Ætla ég að nefna skýrslu sem hv. þm. Katrín Júlíusdóttir vann sem formaður sameiginlegu EES-nefndarinnar ásamt Diönu Wallis þingmanns frá Bretlandi um framtíðarhorfur Evrópska efnahagssvæðisins, sem er mjög gagnlegt skjal. Ég geri ráð fyrir að ef hv. þm. Katrín Júlíusdóttir komi hér muni hún fara yfir þessa skýrslu sem er mjög gagnleg í allri þessari umræðu.

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að minnast á það að forsætisnefndin hefur aukinn skilning á þeirri þörf sem er uppi varðandi aukin samskipti við Evrópuþingið. Við þurfum að geta farið þar á fundi með systurflokkum okkar í Evrópu eins og nefnt hefur verið hér í umræðunni. Nú er gert ráð fyrir því á Alþingi að þingnefndirnar geti farið og kynnt sér hvað samsvarandi nefndir í Brussel eru að vinna með þannig að menn geti komið að málum fyrr og jafnvel rætt þau mál í þingnefndunum hér í þinginu sem er náttúrlega af því góða og hefði átt að vera búið að koma því á fyrir löngu. Auðvitað getur maður sagt það núna að það er náttúrlega ótrúlegt að menn skuli ekki hafa tekið á því fyrr, þeim samþykktum að auka þessi samskipti eins og getið var um þegar samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið var samþykktur á Alþingi. En það er betra seint en aldrei og nú lítur út fyrir að við munum bæta þessi samskipti. Það er af hinu góða en það hefur staðið upp á þingið hvað það varðaði.

Í lokin ætla ég aftur að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að hafa frumkvæði að því að Evrópumálin eru rædd hér sérstaklega og muni verða það árlega. Það er mjög jákvætt og gagnlegt fyrir okkur þingmenn alla.