135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

stefna ríkisstjórnarinnar í gjaldmiðilsmálum.

[15:10]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Sé það ekki við hæfi að hæstv. forsætisráðherra tjái sig um það viðfangsefni sem hæstv. fjármálaráðherra hefur með höndum, að kveða upp úrskurðinn, er þá við hæfi að varaformaður Sjálfstæðisflokksins og hæstv. menntamálaráðherra geri það í Valhöll? Var kannski verið að senda fjármálaráðherra svolitla leiðsögn í gegnum ræðustólinn í Valhöll?

Ég nefndi sérstaklega fjármálafyrirtæki vegna þess að mér er vel ljóst hvernig þetta stendur með almenn fyrirtæki í atvinnulífinu, en hitt er og hefur alltaf verið miklu meira álitamál, hvort þessi heimild ætti að taka til fjármálafyrirtækja. Seðlabankinn ræður núna frá því og færir fram þau rök að það muni draga enn bitið úr peningamálastefnunni ef stórum fjármálafyrirtækjum verði leyft að hverfa yfir í evru. Að öðru leyti vonast ég til þess að hæstv. forsætisráðherra geti veitt aðeins fyllri svör um það hvernig til standi á næstunni að haga málflutningi ríkisstjórnarinnar í þessum efnum. Verður það áfram þannig að hver tali með sínu nefi út og suður þannig að ábyrgðaraðilar eins og formaður utanríkismálanefndar þurfi að hafa áhyggjur af því að (Forseti hringir.) samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn sé að skapa ringulreið og tortryggni varðandi þessi mál á alþjóðavettvangi? (Gripið fram í.)