135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

stjórnarskipunarlög.

168. mál
[16:24]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt, sem hv. þm. Mörður Árnason benti á, að ef til þess kæmi að forseti lýðveldisins yrði þjóðkjörinn og jafnframt forsætisráðherra þá væri um afnám þingræðisins í þeirri mynd sem við þekkjum það að ræða, þ.e. ef hann myndaði ríkisstjórn. En þó þarf það ekki að vera með öðrum hætti en þannig að það væri að sjálfsögðu hægt að setja ákvæði í stjórnarskrá með sama hætti og gildir nú að þingið yrði að þola eða umbera ríkisstjórn og forseti yrði þá að sætta sig við að ríkisstjórn hans yrði að vera samsett með þeim hætti að þingið mundi umbera hana, og það mætti enn hafa ákvæðið um að samþykkt yrði vantraust á einstaka ráðherra o.s.frv. Grundvallarhugmyndin varðandi þingræðið mundi því áfram skila sér þrátt fyrir að eðli forsetaembættisins yrði breytt með þeim hætti sem ég var hér að benda á. Þá mundi forseti lýðveldisins mynda ríkisstjórn en Alþingi yrði í raun að umbera hana eins og Alþingi þarf að umbera ríkisstjórn núna.

Það er nú einu sinni þannig að við getum haft minnihlutastjórn. Svo fremi ekki sé samþykkt vantraust á viðkomandi ríkisstjórn situr hún jafnvel þó að meiri hluti þingmanna styðji hana ekki, sé ekki á bak við hana. Þannig að í þingræðishugmyndinni, hugmyndafræðinni, er við það miðað að löggjafarvaldið samþykki ekki vantraust.

En þessi hugmynd og síðan hugmyndin um það að forseti lýðveldisins gegni störfum sem forseti Alþingis eru ekki einhverjar sérstakar hugmyndir sem ég kem fram með, eitthvað nýtt af nálinni. Ég er ekki að finna þetta upp því að ég hygg að þetta hafi t.d. verið rætt í síðustu stjórnarskrárnefnd, og verið þar mjög til umræðu, m.a. af einum fyrrum formanni stjórnarskrárnefndar.