135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

einkarekstur og útvistun á starfsemi Landspítala.

[13:47]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Útgjöld til heilbrigðiskerfisins taka stærstan hluta tekna ríkissjóðs á hverju ári enda gerðar miklar kröfur í heilbrigðismálum. Þrátt fyrir háar fjárveitingar hefur gagnrýni á kerfið verið mikil og stöðug og sérstaklega hafa langir biðlistar farið fyrir brjóstið á fólki, t.d. biðlistar eftir hjartaþræðingu sem jukust um 17% á milli áranna 2006 og 2007 og bæklunaraðgerðum sem fara vaxandi.

Það er ekkert óeðlilegt við það að stjórnendur spítala leiti leiða til að ná fram meiri afköstum og hagkvæmni, ekki síst ef útgjöld aukast ekki frá því sem er í dag. Ein þeirra hugmynda sem stjórnendur spítala hafa t.d. staldrað við sem lausn á löngum biðlistum er svokölluð útvistun verkefna, þ.e. að láta vinna verkin samkvæmt útboði eða verksamningum og í einhverjum tilvikum utan spítala.

Við í Frjálslynda flokknum erum ekki andvígir slíkum hugmyndum um útvistun verkefna en gæta verður þess að kostnaður sjúklinga aukist ekki og að trúnaðar við sjúklinga sé vel gætt. Allt sem getur bætt þjónustuna í heilbrigðiskerfinu og dregið jafnframt úr vaxandi útgjöldum til þessa málaflokks er vissulega þess virði að athuga það gaumgæfilega.

Við framkvæmdina þarf að sjálfsögðu að fara að öllu með gát og hafa náið samráð við starfsmenn spítala sem og aðra hagsmunaaðila. Markmiðið hlýtur að vera að veita góða heilbrigðisþjónustu án vaxandi kostnaðar fyrir einstaklinga og að góð nýting á fé ríkissjóðs sé höfð að leiðarljósi. Gæta verður þess að samstarf og heiðarleiki ríki í þeim viðskiptum og þeim breytingum sem hér eiga að verða og heilbrigðisráðherra verður að fara varlega í svona málum.