135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

fjáraukalög.

148. mál
[15:31]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að fara nokkrum orðum yfir ræðu hv. þm. Guðna Ágústssonar. Í raun komu þessi orð barnanna í huga minn fyrst þegar ég hlustaði á ræðuna: Hvað ætlar hv. þingmaður að gera við peningana sem frúin í Hamborg færði honum? Hér reiknaði hann sig upp í stóran afgang, það væri hægt að gera göng og sífellt meiri vegbætur fyrir afgang af því þegar væri búið að borga upp skuld af Hvalfjarðargöngunum. Ég bið hv. þingmann um að koma nú með þetta dæmi svona einfalt í plús og mínus svo að við þessir venjulegu skiljum reikningsdæmið.

Mig langar jafnframt að það komi fram að við afgreiðslu og umræðu fjárlaga 2008 talaði hv. þm. Guðni Ágústsson hátt og snjallt um að nú væru á ferðinni óráðsíufjárlög. Verið væri að eyða og sukka út og suður. Hvað skyldi hv. þingmaður hafa lofað miklu hér fyrir stundu í ræðu sinni? (Gripið fram í.)

Í afgreiðslu fjárlaga í haust, rétt fyrir jól, var talað um að núverandi ríkisstjórn væri að eyða um efni fram og að farið væri langt út fyrir alla ramma. En það sem hv. þingmaður sagði hér áðan var sko út og suður.