135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

endurskoðun á skattamálum lögaðila.

169. mál
[17:06]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Það er rétt að ég hélt því fram áðan að hv. þm. Ellert B. Schram hefði fjármálavit. Ég ætla svo sem ekki að draga úr því en ég skal draga það til baka en halda því þá fram í staðinn, eins og kemur fram í ræðu hans, að hann hafi réttlátt hjartalag. Það er í rauninni miklu dýrmætari eiginleiki í einum manni því að maður með réttlátt hjarta og velviljaður nær yfirleitt árangri þar sem hann fer og það hefur hv. þingmaður gert.

Það er athyglisvert að sjá hv. þingmann taka þetta mál upp og margar spurningar kvikna undir ræðu hans. Ég minnist þessa máls og þeirrar aðgerðar sem gerð var eins og lýst er í þessari tillögu og rökin voru þau sem hér koma fram, að fyrirtæki færu ekki úr landi og að erlendir aðilar kæmu hingað. Nú sjáum við þessa gríðarlegu þróun, 24 þúsund fyrirtæki ekki rétt? (Gripið fram í: 25.) 25 þúsund fyrirtæki eru til orðin í landinu um þetta. Hverjir eiga öll þessi fyrirtæki? Hefur málið þróast öðruvísi en til var stofnað? Ég sat í þeirri ríkisstjórn og tel mikilvægt að fara yfir þetta. Eru þetta 25 þúsund einstaklingar, eru það margir einstaklingar sem eiga mörg þessara fyrirtækja? Þetta eru spurningar sem ber að fara yfir. Síðan er spurningin: Hvað komu margir erlendir aðilar? Ég skoðaði því miður ekki fyrirspurn hv. þingmanns frá síðasta þingi. Hvað komu margir aðilar inn í landið út á þessa aðgerð? Við getum eðlilega spurt að því. Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með fjármálaráðuneytið hátt í 17 ár og þar af leiðandi stýrt skattamálaráðuneytinu svo völd hans hafa verið mikil í þessu efni. (Gripið fram í.) Í samstarfi við Framsóknarflokkinn hafa skuldir ríkissjóðs verið greiddar niður. Það er rétt, hér hefur verið mikil tekjumyndun og við breyttum skattkerfinu oft og tíðum í þágu fólks og fyrirtækja. Það er hárrétt. Ég held að það hafi verið góðar aðgerðir yfir höfuð. Hins vegar get ég auðvitað sagt hér að kannski hafi mér fundist að aldrei hefði verið horft til litla mannsins í þjóðfélaginu eins og býr í eðli okkar framsóknarmanna og því er auðvitað athyglisvert að sjá hv. þingmann úr Samfylkingunni, Ellert B. Schram, flytja þetta mál.

Það gerðist nú fyrir jólin að ASÍ ætlaði að reyna að ná kjarasamningum til langs tíma á breiðum grundvelli og hafði sérstaklega áhuga á að skoða skattamál og sjá lækkun á sköttum þeirra sem verst eru settir. Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn vísuðu þessu fólki heim og sögðu núna eftir áramótin: Við viljum ekki tala við ykkur um það mál sem þið eruð að tala um. Þeir sögðu ekki einu sinni: Við viljum skoða málið með ykkur. Þeir sendu bara ASÍ heim og sögðust ekki vilja koma að málinu með þessum hætti. Það er þess vegna óvissa í kjaramálum sem er gríðarlega erfitt við þær aðstæður sem nú eru. Hvað ef ríkisvaldið hefði nú getað stuðlað að langtímakjarasamningum á vinnumarkaði með skynsemi til að halda verðbólgu niðri og skapa öryggi á vinnumarkaði? Nei, þegar Alþýðusamband Íslands var að hugsa um hvort hægt væri að koma eitthvað til móts við þá sem eru með lökust kjörin í skattamálum, þá var það ekki einu sinni viðræðugrundvöllur, bara burt með ykkur, farið þið heim, við höfum ekkert við ykkur að tala um þessi mál. Þetta er ríkisstjórn hv. þingmanns og ég minnist bara á þetta í framhjáhlaupi til að hafa vakið athygli á því.

Það er hárrétt sem hv. þingmaður segir að það er gríðarlega mikilvægt í litlu landi eins og okkar, og reyndar í öllum þjóðfélögum að mínu mati, að virða jafnræði á milli einstaklinganna. Ef þetta mál hefur þróast með allt öðrum hætti en til stóð og menn með mjög háar tekjur eru kannski að reyna að koma þeim undan því að taka þátt í samfélagi sínu — við höfum náttúrlega heyrt það í umræðum hjá sveitarfélögunum að þau hafi orðið af, ég man ekki hvaða upphæðir þau nefna, gríðarlegum tekjum, að því er þau telja, vegna þessa fyrirkomulags og hafa verið að gera kröfur á ríkisvaldið — þá vil ég taka undir það með hv. þingmanni að það sé mjög mikilvægt að fara yfir stöðu þessa máls og afla frekari upplýsinga. Skoða það í grunninn hvort þetta hafi skapað frítekjukerfi fyrir fólk frá því að gjalda keisaranum það sem keisarans er og taka minni þátt í samfélaginu, sveitarfélaginu, og minni þátt í útgjöldum ríkisins en því ber miðað við þá tekjuöflun sem þarna á sér stað.

Ég tek undir þá skoðun að það sé mikilvægt að fara yfir þetta og það er kannski líka tímabært, ekki síst vegna þess hvernig farið var með Alþýðusamband Íslands, að fara yfir skattamál í heild sinni. Við erum á margan hátt vel sett, Íslendingar, en við þurfum að skoða tekjuöflunarkerfi okkar hjá ríki og sveitarfélögum. Þar þyrfti kannski að fara í gang heildarendurskoðun á því hvað sé heppilegast fyrir alþýðuna. Hvernig verða kjör hennar bætt? Hvernig er tekjuskipting þjóðfélagsins? Við notuðum skatta til að jafna tekjur manna í samfélaginu í gegnum tíðina og það er í rauninni eina leiðin sem ríkið hefur. Við vitum að á síðustu árum hefur margt breyst gríðarlega. Eitt sinn voru sumir með laun sem þóttu meira að segja há, einhverjir voru að fá tvöföld og þreföld laun forsætisráðherra. Nú eru hér gríðarlega margir nýríkir menn — kannski eru þeir að falla í tekjum, ég veit ekkert um það, ég vona ekki — sem hafa tekið sér óhófleg laun og laun sem við höfum í rauninni ekki heyrt um á Íslandi fyrr en á síðustu árum, bæði vegna útrásar fyrirtækja og stöðu í öðrum löndum. Þetta eru náttúrlega laun sem menn eiga ekki að bjóða sér í okkar litla landi því að það er aldrei einn maður sem dregur fyrirtæki áfram, það er auðvitað fjöldinn, hver maður er mikilvægur í fyrirtækinu hvort sem það er skúringastúlkan eða skúringamaðurinn eða forstjórinn, þetta er ein keðja. Við þekkjum hið réttláta kerfi sem notað var til sjós, það var mikilvægt, þar voru menn á hlut, skipstjórinn hafði tvo, aðrir höfðu einn og einhverjir einn og hálfan og einn og einn fjórða. Þannig var skiptingin þá. En núna er kominn mjög stór hópur manna með gríðarlega há laun og mjög miklar tekjur sem ég trúi að vilji sjálfir borga ríkinu meira og gjalda keisaranum meira af því sem þeir hafa.

Um leið og ég tek undir það að menn fari yfir þetta mál og brjóti það til mergjar tel ég mikilvægt að farið verði yfir réttlæti í skattlagningu bæði hvað varðar einstaklinga og fyrirtæki og miðað við breytta tíma í þjóðfélagi okkar.