135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

stefna ríkisstjórnarinnar í gjaldmiðilsmálum.

[15:16]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég held að ekki einn einasti stjórnmálaflokkur hafi nokkurn tímann útilokað aðild að Evrópusambandinu um aldur og ævi. Ég held að engum manni detti í hug að taka þannig til orða.

Hitt er annað að það hefur slæðst einhver misskilningur inn í þetta mál ef menn eru að tala um einhvern 70 milljarða kostnað af núverandi kerfi í vaxtagreiðslum vegna þess að þeir vextir sem greiddir eru af þjóðarbúinu til annarra í þjóðarbúinu telst ekki nettókostnaður fyrir þjóðarbúið út á við, ef það er það sem hv. þingmaður átti við.

Að öðru leyti vísa ég til þess sem ég hef áður sagt og samkomulag er um milli flokkanna að Evrópusambandsaðild er ekki á dagskrá núverandi ríkisstjórnar á þessu kjörtímabili. Grundvöllur að vinnu okkar á því sviði er sú skýrsla sem ég nefndi áðan og Evrópunefnd svokölluð skilaði af sér snemma á árinu 2007.

En mætti ég kannski snúa þessari spurningu við, herra forseti, og spyrja hv. þingmann hvaða skoðun hann hefur á þessu máli? Er hann sem þingmaður Frjálslynda flokksins sömu skoðunar og hann var þegar hann var þingmaður Alþýðubandalagsins eða þegar hann var þingmaður í þingflokki Alþýðubandalagsins og óháðra eða þegar hann var í þingflokki Framsóknarflokksins? Hvaða stefnu hefur hv. þingmaður sjálfur núna í þessu máli? (Gripið fram í.)