135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

kaupréttarsamningar.

[15:25]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Til að svara spurningu þingmannsins beint þá tel ég persónulega að ekki þurfi að breyta lögunum til þess að utan um þessi mál sé sniðinn nægjanlega góður rammi. Um efnisatriði þess máls sem rætt er í fjölmiðlum um Vilhjálm Bjarnason og Glitni ætla ég ekki að fjalla, ég hef ekki kynnt mér það nákvæmlega, það er dómstólanna að kveða upp úr um það.

Lögin eru mjög skýr. Þegar þau eru skoðuð í ljósi þessarar umræðu virðast þau taka af öll tvímæli um hvað stjórnum félaga sé heimilt að gera og hvað ekki. Út frá því sjónarhorni virðist ekki þurfa að breyta lögum en auðvitað verður það metið í ljósi þeirra mála sem nú munu ganga fyrir dómstóla. Þar verður lagt mat á efnisatriði ásakana Vilhjálms og annarra í þessum málum og út frá því er sjálfsagt að skoða hvort breyta þurfi lögunum. Þau virðast vera mjög skýr og afdráttarlaus hvað þessi efni varðar almennt.