135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

loftslagsmál.

[15:31]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra segir: Við verðum að hlíta niðurstöðunni þegar hún kemur. Ég spyr hér: Ætlum við ekki að hafa áhrif á hver hún verður? Ætlum við ekkert að vinna að hagsmunum Íslendinga? Við gerðum það á sínum tíma, ráðherrar í fyrri ríkisstjórn, við börðumst um á hæl og hnakka til að ná fram íslenska ákvæðinu. Á að glutra því niður nú af því að menn eru ósammála í ríkisstjórninni? Sjálfstæðisflokkurinn vill viðhalda íslenska ákvæðinu eða innihaldi þess eins og Samtök atvinnulífsins. Það vill Samfylkingin ekki, alla vega hefur hæstv. umhverfisráðherra talað gegn því.

Ég spyr nú: Á að nýta svigrúmið fram að 22. febrúar til að skila inn áherslupunktum okkar eða ætlum við að sleppa því? Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera þegar samningalotan hefst í apríl? Ekki segja neitt? Segja bara: Já, við hlítum niðurstöðunni þegar hún kemur?

Það er ekki boðlegt, virðulegur forseti. Ríkisstjórnin verður að fara að koma fram með samningsumboðið og vinna svo að því að ná því. (Forseti hringir.) Þannig höfum við Íslendingar alltaf unnið og þannig á að vinna áfram í stórum hagsmunamálum.