135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

störf þingsins.

[14:00]
Hlusta

Árni Johnsen (S):

Herra forseti. (GÁ: Já, Árni er gamall kennari.) Já, Árni er gamall kennari. Það er ekki rétt að nota orðið umönnunarstétt um kennara. Kennarar eru ekki umönnunarstétt. En ég ætla að ljúka aðeins frekari þátttöku í umræðum um jarðgangamál.

Færustu sérfræðingar Háskóla Íslands, Verkfræðistofnunar og Jarðvísindastofnunar háskólans, hafa lýst því yfir að ef sá lokasprettur sem er búið að skipuleggja í lokarannsóknum, forrannsóknum, gengur þokkalega þá sé hægt að gera jarðgöng milli lands og Eyja með ódýrari hætti, þ.e. svipað eins og Hvalfjörður eða Héðinsfjörður. Kannski með 20% álagi sem þýðir einhvers staðar um eða innan við 20 milljarða.

Ef rökin leiða það í ljós þá eru jarðgöng milli lands og Eyja viðskipti, fyrst og fremst viðskipti. Þau eru sjálfbær og á tveggja, þriggja áratuga tímabili er hægt að færa kostnað á ári úr milljarði í mínus, í milljarði í plús.

Þetta er mergurinn málsins og þetta er hagkvæmast fyrir ríkissjóð en til þess þarf að ljúka þessum rannsóknum. 3.400 Vestmannaeyingar, af 4.000 skráðum Vestmannaeyingum, skrifuðu undir áskorun síðastliðið ár um að ljúka þessum forrannsóknum. Allir forustumenn, eins og ég gat um áðan, lofuðu því að fylgja því eftir. Það næst aldrei sátt í þessu máli nema þessu sé lokið og það er eðlilegt að ljúka þessu.

Rannsóknir eru ekki eins og árgangur af víni. Rannsóknum þarf að ljúka skipulega og af metnaði og það kostar ekki meira en þetta að ljúka þeim vegna þess að tilboðin liggja fyrir. Þetta byggist ekki á spádómum heldur staðreyndum. Ég vil undirstrika það (Forseti hringir.) að Vestmannaeyingar fagna öllum bótum, en það þarf líka að vinna í réttri röð.