135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

framhaldsskólar.

53. mál
[16:20]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er áfram ítrekað að hér sé verið að flytja tillögur Samfylkingarinnar og allt gott um það. Ég ætla aðeins að bera hönd fyrir höfuð mér varðandi þær fyrirspurnir sem ég kom með áðan til hv. þingmanns og tillöguflytjanda, Árna Þórs Sigurðssonar. Það eru engir útúrsnúningar að spyrja um tölvur eða aðra slíka hluti vegna þess að um það verður spurt í umræðunni í menntamálanefnd hvað átt sé við með bókum og námsgögnum. Þeir sem hafa flutt þessar tillögur í kosningabaráttunni hafa að sjálfsögðu verið spurðir að þessu og við þurfum auðvitað útfæra það hvað átt er við.

Ég lýsti því yfir að ef tillagan sem hér liggur fyrir er einmitt um útfærslu miðað við grunnskólann, þ.e. um það sem verið hefur í gangi þar, þá sé ég ekki að neinn ágreiningur verði um það í menntamálanefnd. Það sem verið er að takast aðeins á um núna í sambandi við nýju grunnskólalögin er m.a. greiðslur foreldra varðandi ýmsar ferðir og hvað má gera á vegum grunnskólans, t.d. á vegum foreldrafélaga, hvað fellur undir skólaferð og hvað fellur utan við, hvenær má taka gjöld og hvenær ekki. Það hefur líka verið praktíserað í skólum ágreiningslaust að einstök verkefni á vegum skólans hafa verið greidd af foreldrum, t.d. ef boðið er upp á kjólasaum eða eitthvað slíkt, nemendur koma þá með efnið sjálfir og fá leyfi til að vinna þetta í skólanum og fleira í þeim dúr. Valgreinarnar hafa þannig að einhverju leyti verið undir gjaldtöku. Það var eingöngu þetta sem ég var að velta upp.

Ég ætla bara að ítreka þá fyrirspurn til hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar hvort það sé ekki rétt skilið að hann sé að tala um að þetta verði með líkum hætti og verið hefur í grunnskólum þegar hann er að vitna til þess að þetta sé afar einfalt og eigi að vera eins og þar hefur verið tíðkað.