135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

stofnun háskólaseturs á Selfossi.

343. mál
[19:01]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Við erum að ræða hér þingsályktunartillögu um stofnun háskólaseturs á Selfossi. Hv. þm. Jón Bjarnason hefur farið yfir þingsályktunartillöguna. Ég hef fylgst með þessu máli allt frá þeim tíma þegar Samtök sunnlenskra sveitarfélaga tóku þá ákvörðun að leggja í mikla vinnu og mikinn kostnað við undirbúning háskóla á Suðurlandi. Varðandi þá þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir er fyrst að nefna að þar kemur fram að verið sé að endurflytja hana og það hefur margt gerst síðan þessi ágæta tillaga var flutt áður.

Það er rétt sem kemur fram í greinargerð með tillögunni að aðalfundur SASS hafði yfir að ráða 80 millj. kr. sjóði, sem var Atvinnuþróunarsjóður Suðurlands, sem þeir hugðust láta í þetta verkefni. Staðreyndin er sú að málið er komið nokkuð lengra en hér segir, það er búið að stofna Háskólafélag Suðurlands, það er í hlutafélagsformi og það er mjög jákvætt. Aðilar í Háskólafélagi Suðurlands eru sveitarfélögin í gamla Suðurlandskjördæmi en þó ekki Vestmannaeyjar. Hlutafé í félaginu er 65 millj. kr., það er það sem sveitarfélögin á svæðinu hafa látið af eignum sínum í atvinnuþróunarsjóðinn. Það er búið að nýta u.þ.b. 15 milljónir af fjármagninu nú þegar til undirbúnings þessu verkefni. Staðan er því sú að málið er í raun komið mun lengra en þessi þingsályktunartillaga segir til um.

Ég held því að það sé eðlilegt að tillagan sé rædd og gangi áfram til nefndar en það væri eðlilegt að hún væri uppfærð miðað við þann gang sem er í málinu. Ég vonast til þess að þetta háskólafélag muni taka til starfa með þeim krafti sem ég á von á og að sjálfsögðu í sambandi við menntamálaráðuneytið og aðrar þær stofnanir sem eru á Suðurlandi. Það eru nokkrar stofnanir á Suðurlandi, eða á því starfssvæði sem þessi nýja stofnun er á, sem nú þegar eru á háskólastigi. Þar má nefna Landbúnaðarháskóla Íslands á Reykjum í Ölfusi og Háskóli Íslands hefur jafnframt verið með rannsóknarsetur í Hveragerði sem er orðið tengdara Reykjum. Það er Jarðskjálftamiðstöð Háskóla Íslands á Selfossi, þar er unnið mjög merkilegt starf. Landgræðslan er í Gunnarsholti, íþróttakennaraskor Kennaraháskóla Íslands er á Laugarvatni, það eru því víða á þessu tiltekna svæði, innan starfssvæðis Háskólafélags Suðurlands, stofnanir á háskólastigi, fyrir utan gríðarlega öflugt símenntunar- og fjarnám sem er stundað víða að á Suðurlandi, þá einkum og sér í lagi frá Háskólanum á Akureyri en þar er afskaplega fjölþætt starf unnið.

Það er nefnt í greinargerð um stofnun þessa háskólaseturs að það þurfi að auka fjölbreytni í atvinnulífi á svæðinu og ég get tekið undir það og að því er unnið á margvíslegan hátt. Í þessu ágæta plaggi er vitnað í ályktanir SASS sem lúta að því að sú orka sem hér eftir verði beisluð í kjördæminu verði nýtt til atvinnuuppbyggingar á svæðinu. Ég fagna því að það skuli vera hljómur Vinstri grænna sem tekur undir það mál.