135. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2008.

mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar.

[13:33]
Hlusta

Huld Aðalbjarnardóttir (F):

Virðulegi forseti. Á haustdögum kynnti ríkisstjórnin svokallaðar mótvægisaðgerðir sem viðbrögð við niðurskurði á þorskkvóta. Margir gagnrýndu þessar mótvægisaðgerðir, m.a. við framsóknarmenn, fyrir það að ekkert samráð var haft við hlutaðeigendur og að þær beindust ekki að rótum vandans. Þær eru mjög ómarkvissar og lítið gert, þar af leiðandi eru þær mjög veikar.

Að lokum hlaut þó ríkisstjórnin að sjá að sér og nú hefur hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde boðað endurskoðun á mótvægisaðgerðunum. Mig langar því að spyrja hv. formann sjávarútvegsnefndar hvort hún geti upplýst okkur um hvenær þessar nýju tillögur muni líta dagsins ljós. Mjög margir bíða með óþreyju eftir upplýsingum, stefnu og aðgerðum í þessum málum. Það er ekki hægt að bíða lengur. Ástandið er víða orðið mjög erfitt. Það er búið að segja fjölda manns upp á Eyjafjarðarsvæðinu, í mínu kjördæmi, m.a. á Húsavík, á Raufarhöfn og miðað við síðustu fréttir af loðnuveiðunum verður ástandið erfitt á Þórshöfn líka.

Því bið ég hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur að upplýsa okkur um þessi mál.