135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

úthlutun byggðakvóta.

[14:13]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur mælt fyrir heildarendurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu með stórauknum rannsóknum í nánu samstarfi við sjómenn og stórauknum fjárveitingum. Við förum þar fram undir kjörorðinu Sjómenn græða hafið. Þrjú mikilvægustu meginmarkmið endurskoðunar eru auðvitað að auðlindir sjávar verði raunveruleg sameign þjóðarinnar, sjávarútvegurinn lagi sig að markmiðum sjálfbærrar þróunar og sjávarútvegsstefnan treysti og efli byggð í landinu. Í þessu samhengi vil ég halda því til haga að álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna er afdráttarlaust. Aflahlutdeild í mynd varanlegs eignarréttar er brot á jafnræðisreglu, brot á mannréttindum. Hið sama gildir um sölu eða framsal á aflahlutdeild, sölu, leigu eða kaup.

Herra forseti. Það að afnema byggðakvótann eða setja hann á uppboð er andstætt markmiðum okkar. Það er andstætt fiskveiðistjórnarlögunum og það er fjarri því að uppfylla þær skuldbindingar sem álit Sameinuðu þjóðanna leggur á okkur. Mannréttindabrotin halda áfram. Skynsamlegur byggðakvóti eða byggðatengdur kvóti eru einu leifarnar af þeirri samfélagslegu og landsbyggðarhugsun sem eftir stendur af kvótakerfinu. Hugmyndir um uppboð á byggðakvóta eru hreinlega fjandsamlegar landsbyggðinni. Þvert á móti verðum við að styrkja byggðatengda kvótann mjög verulega. Við getum auðveldlega tekið upp byggðatengdan ferðaþjónustukvóta fyrir öfluga og ört vaxandi sprotagrein, þ.e. fiskveiðiferðamennsku á Íslandi sem hefur komið sér afar vel fyrir sjávarbyggðir sem hafa misst kvóta eða eru kvótalitlar. Ég nefni þar sérstaklega Vestfirði og Austurland.

Við getum líka, herra forseti, tekið upp tilraunaverkefni um veiðar frá sjávarjörðum að sumarlagi. Það er ýmislegt hægt að gera innan þessa byggðatengda kerfis og við verðum að viðhalda því, styrkja það og sýna landsbyggðinni skilning í stað þess að fara fram með fjandsamlegum áformum.