135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[18:06]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við höldum áfram umræðu um málið sem lauk síðast 29. janúar sl. fyrir nákvæmlega fjórum vikum. Það er ljóst að umræðan líður fyrir skort á samfellu, svo langt er um liðið að menn eru væntanlega búnir að gleyma því sem þá var sagt.

Ég vil byrja á því, frú forseti, að ræða um 1. gr. frumvarpsins um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, en þar segir, með leyfi forseta:

„Á eftir 27. gr. laganna kemur ný grein, 28. gr., sem orðast svo:

Gildistími laganna er til 1. september 2010 enda taki þá gildi ný heildarlög um stjórn fiskveiða.“

Mér sýnist að rökfræðilega gangi þetta ekki upp. Segjum að þetta yrði samþykkt á þennan veg og Alþingi samþykki ekki ný lög. Á þá að skilja þetta þannig að þetta ákvæði taki ekki gildi? Eða á það að taka gildi og lögin bara falla úr gildi þar með? Ég átta mig ekki alveg á því og ég get ekki séð að núverandi löggjafarþing geti skuldbundið þing í framtíðinni til að setja lög og geri ég því athugasemd við þetta ákvæði.

Frumvarpið er í heild sinni nokkuð loðið. Eins og fram kom í umræðunni í lok janúar kvörtuðu menn undan því. Ekki er sagt nákvæmlega hvað eigi að gera í þessum málum heldur að það eigi að taka upp sjálfbæran sjávarútveg, talað er um skipbrot núgildandi laga og síðan kemur þarna eitthvað um að sjómenn græði hafið. Það er einhver ný hugsun sem ég átta mig ekki alveg á. En við ræðum á eftir, sem 14. mál á dagskrá, tillögu til þingsályktunar um breytta stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Mér finnst dálítið miður, frú forseti, að þessi mál skuli ekki vera tekin saman því að þau fjalla eiginlega um sama efni.

En fyrir liggur að 24. október kom fram álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, nr. 1306/2004, þess efnis að fiskveiðistjórnarkerfi Íslendinga brjóti í bága við alþjóðasamninga um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem Ísland hefur staðfest og breyta beri lögum um stjórn fiskveiða. Þetta er álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Það kemur ansi mikilli hreyfingu á umræðu um stjórn fiskveiða sem hefur þó verið umtalsverð undanfarin ár.

Ég vil taka þátt í þeirri umræðu. Ég lagði fram tillögu til þingsályktunar á 125. löggjafarþingi 1999, um að skipta árlegum afnotarétti fiskstofna á milli íbúa landsins. Það var sem sagt tillaga til þingsályktunar um að fela ríkisstjórninni að kanna kosti og galla þess að árlegum afnotarétti nytjastofna á Íslandsmiðum yrði skipt jafnt milli allra íbúa landsins. Þetta er önnur hugsun en sú sem kemur fram hjá Samfylkingunni, sem hún hefur barist fyrir síðan, um afskriftakerfi þar sem kvótaeign útgerðarinnar er afskrifuð og ríkið mundi eignast kvótann. Þetta er líka önnur hugsun en sú sem kemur fram hjá hv. þingmönnum Vinstri grænna. Í þeirra hugmyndum er það ríkið sem átti að eignast kvótann, í mínum hugmyndum er það einstaklingurinn sem á að eignast kvótann og það er verulegur munur á því. Þó að ég hafi lagt til löngu áður en Samfylkingin kom fram með það að eign sjávarútvegsfyrirtækja í kvótanum yrði afskrifuð á 20 árum gerði ég reyndar ráð fyrir, það er opið til umræðu hvort það er á 20, 25 eða 30 árum, sem þetta yrði afskrifað hjá útgerðinni og flutt yfir til einstaklinganna. En þá stóð ég frammi fyrir spurningunni: Hvað er þjóð?

Það stendur í lögum um stjórn fiskveiða að fiskstofnar við strendur landsins, í hafinu, séu sameign íslensku þjóðarinnar. Í fyrsta lagi fellur maður um orðið sameign og í öðru lagi fellur maður um orðið þjóð. Hvort tveggja er óskilgreint. Sumir segja að ríkið sé sama og þjóðin. Ég segi: Nei, takk. Ríkið er ekki sama og þjóðin. Þegar einstaklingurinn fer að borga skatta til ríkisins þá er það ekki sami aðili því að ríkið gengur harkalega fram í því að ná sköttum af þessum einstaklingi og hann getur ekki verið að semja við sjálfan sig, þ.e. þjóðina, um það. Ég geri því mikinn mun á ríki og þjóð. Ríki er stofnun eða lögpersóna sem hefur ákveðið vald samkvæmt stjórnarskrá en er langt frá því að vera það sama og þjóðin.

Svo er það sameignin. Þegar einhverjir þrír menn eða fjórir eiga í félagi sameign þá er það yfirleitt þannig að þeir hafa jafnan atkvæðisrétt og þegar maður á einhverja eign á maður að geta selt hana, maður á að geta veðsett hana, maður á að geta gefið hana og hún á að erfast. Svo er ekki með þetta fyrirbæri, sameign þjóðar, þannig að þetta er ekki nein sameign. Ég get t.d. ekki tekið minn hlut og selt hann á morgun, það er útilokað þannig að orðalagið „sameign þjóðarinnar“ er í mínum huga mjög loðið og óskilgreint hugtak.

Fyrst menn eru að fjalla um þetta með tveimur málum á dagskránni í dag má ég til með að geta rétt aðeins um þingsályktunartillöguna sem ég flutti. Útgerðin er núna í þeirri stöðu að 80% af þeim sem eiga kvóta í dag hafa keypt hann dýru verði af þeim sem upphaflega fengu honum úthlutað. Ekki er hægt að taka þá eign, að mínu mati, af því fólki viðstöðulaust og geri ég því ráð fyrir að þetta verði afskrifað á um 20 árum, sem er langur tími í sögu fyrirtækja en mjög stuttur tími í sögu þjóðar. Þessum kvóta yrði dreift á þjóðina, fyrst sem 5%, síðan 10% næsta ár og síðan 15%, og gerði ég ráð fyrir að hver maður fengi þrjú ár fram í tímann, börn, gamalmenni, allir. Það mundi þýða að við fyrstu úthlutun fengju menn 30% af kvótanum og hann færi á markað og eflaust mundu þá myndast kvótasjóðir o.s.frv.

Ég gerði líka ráð fyrir því að útgerðin, þegar hún sætti þessari afskrift, hefði kvótann algerlega frjálsan til meðhöndlunar. Það er engin veiðikvöð, kvótinn er ekki bundinn við skip eða nokkurn skapaðan hlut og þannig mundi verðmæti kvótans aukast í hendi útgerðarinnar. Ég hugsa að ef útgerðin færi í gegnum þetta dæmi allt saman mundi hún sjá að hún mundi hugsanlega græða á því að fá með lögum kvótann til 25 ára. Síðan yrði hún að kaupa hann á markaði eftir því sem tímar liðu fram. Markaðsverðið mundi að sjálfsögðu fara eftir framboði og eftirspurn og ég get um það sérstaklega að þegar fram í sækir verði það u.þ.b. tvö þorskígildistonn sem hver Íslendingur fær, tæplega kannski.

Sumir mundu veiða þetta á handfærum, aðrir mundu reyna að selja og flestir held ég. Þeir mundu mæta öllum útgerðarmönnum landsins sem mundu vilja kaupa. Kvótasjóður mundi myndast þannig að strax eftir úthlutun mundu menn geta selt þetta, og er ég þá alltaf að tala um árlegar veiðiheimildir, aldrei um stofninn sjálfan. Hann er ekki lengur til sem hugtak ef þessi breyting verður heldur yrði allt í eigu þjóðarinnar, þ.e. þeirra sem eru búsettir á Íslandi. Ég féll frá því að miða við ríkisfang eftir að við breyttum lögum um það. Ríkisfang er orðið afskaplega loðið hugtak vegna þess að við breyttum lögum á þann veg að barn hjóna með ólíkt ríkisfang hefur ríkisfang beggja foreldra. Eftir þrjár kynslóðir geta menn verið komnir með átta ríkisföng, þannig að ríkisfang er orðið mjög vafasamur hlutur til að byggja réttindi á.

Ég tel skynsamlegra að miða við búsetu á Íslandi, miða við þá sem eru búsettir á Íslandi og hafa verið búsettir þar síðustu þrjú eða fimm árin. Það má setja það inn í reglur að þeir eigi rétt á þessum kvóta. Þar með erum við farnir að nálgast það sem Mannréttindadómstóllinn og þetta ákvæði um sameign þjóðarinnar fjallar um, sem er það að þjóðin sjálf, þ.e. það fólk sem býr á Íslandi, eigi að fá þennan kvóta á hverju ári og geta selt hann hverjum sem er á markaði. Jafnvel á leiðinni í land gæti útgerðarmaður keypt hálft tonn af þorski ef hann hefði veitt svo mikið. Þá mundi myndast lifandi markaður með veiðiheimildir og ég hugsa að þeir sem geta veitt ódýrast, þ.e. trillukarlar, gætu boðið best og þeir mundu þá fá mest af veiðiheimildunum. Það skyldi ekki vera að það séu einmitt þeir staðir sem eru næst fiskimiðunum, Vestfirðir, Austfirðir og hugsanlega Norðurland, þar sem trillubátaútgerð er stunduð, sem mundu með þessum hætti, ef allur kvóti færi á markað, geta boðið best í hann.

Ég mátti til með að koma inn í þessa umræðu vegna þess að menn hafa fjallað um þetta mál. Í umræðunni 28. janúar kom aftur og aftur fram að engar tillögur hefðu komið um þetta og menn væru ráðlausir. En það hafa sem sagt komið fram tillögur um þetta. Ég hef flutt um þetta tillögu í tvígang en því miður hefur ekki skapast neitt sérstaklega mikil umræða um hana. Ég mundi gjarnan vilja heyra skoðanir manna á kostum hennar og göllum og hugsanlega aðrar tillögur ef menn hefðu. Ég bíð spenntur eftir áliti sjávarútvegsráðuneytisins, sem fer í gegnum umrætt álit mannréttindanefndarinnar. Ég bíð spenntur eftir því hvaða svör munu koma þaðan við því áliti.