135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands.

442. mál
[12:55]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður sagði að það segði svo sem ekki mikla sögu þó að aðeins um helmingur framlaga sem Alþingi ákveður fari nú til Þróunarsamvinnustofnunar, það stæði til bóta þar sem almennt ætti að auka framlögin til þróunarsamvinnu. Það er ekkert sem segir að þó að framlögin til þróunarsamvinnu verði almennt aukin fari meira en helmingur til Þróunarsamvinnustofnunar í tvíhliða verkefni. Það er hægt að haga þessu með svo margvíslegum hætti. Tvíhliða verkefni, sem byggjast á því að við Íslendingar séum sérstaklega með verkefnin og við séum að senda fólk á vettvang, er miklu viðurhlutameiri og flóknari aðgerð. Þar liggja að baki miklu flóknari samningar en í öðrum tilvikum þar sem við getum tekið þátt í aðgerðum stofnana Sameinuðu þjóðanna m.a., en það eru nota bene, virðulegi forseti, ekki reglubundnar greiðslur, það eru frjáls framlög og við ákveðum í rauninni inn í hvaða áætlanir Sameinuðu þjóðanna eða Alþjóðabankans eða annarra aðila við viljum setja þá fjármuni. Það er því algjörlega undir okkur sjálfum komið og stefnumótun okkar. Það er engin skylda og engin nauðung í því hvert við setjum þessi framlög og það er eðlilegt að Alþingi geti ákveðið þetta.

Það má líka velta því fyrir sér þegar þær aðstæður koma upp að Íslendingar vilji hugsanlega kalla verkefni til baka sem búið er að semja um, það er mjög stór og mikil aðgerð að gera það þegar um er að ræða samninga sem búið er að skuldbinda til einhverrar framtíðar. Þá held ég að miklu eðlilegra væri að utanríkismálanefnd Alþingis kæmi að því verkefni og það væri rætt á þeim vettvangi frekar en í stjórn Þróunarsamvinnustofnunar.