135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[17:00]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með þessari umræðu og þeim skoðanaskiptum sem fram hafa farið í dag. Þó að málið hafi lengi staðið í koki sjálfstæðismanna, þetta frumvarp, þá sýnist mér ekki alveg augljóst að málið eigi vísan framgang innan stjórnarflokkanna því að hér hafa þeir talsmenn Sjálfstæðisflokksins sem talað hafa í rauninni snúist gegn málinu. Það er órói í Sjálfstæðisflokknum, (Gripið fram í.) því að frjálshyggjufólkið þar, mennirnir sem hafa opnað augun og þora orðið að takast á við forustu flokksins og reyna að vekja hana til ýmissa verka sem við í stjórnarandstöðunni höfum verið að benda á, þetta er fólk sem lítur ekki málið sömu augum og alls ekki með sömu gleraugum og hæstv. iðnaðarráðherra, sem ég óska eigi að síður til hamingju með þetta stóra mál og að vera kominn með það inn í þingið, því að þetta er eitt af stærri málum þingsins sem lengi hefur verið beðið eftir og það er auðvitað gaman að fylgjast með vegferð hæstv. iðnaðarráðherra. Viðhorfin hafa breyst mikið og mikið hefur sá ágæti þingmaður og ráðherra lært í lífinu frá því að hann stóð hér ungur á þingpöllum sem róttækur sósíalisti eða kommúnisti og ávarpaði þingið ofan af pöllunum. Vegferðin er orðin löng og leiðangurinn orðinn langur og skoðanirnar hafa breyst. Nú er hann kominn niður á græna velli nýtingarinnar og talar auðvitað með allt öðrum hætti en hinn ungi róttæki maður gerði. Ég óska honum til hamingju með þennan leiðangur, því að ég held að það sé líka farsælt að hverfa frá hinum róttæka sósíalisma sem hefur lagt auðug lönd í rúst og drepið mannsandann þannig að framtakið hefur dáið þar sem þetta hefur orðið að leiðarljósi. Vissulega er það svo að jafnaðarstefnan og sú stefna sem við framsóknarmenn förum eftir, hugsjónin um standa vörð um framtakið og almenningshagsmuni, hefur mikið að segja.

Ég hef sagt það hér áður að hv. þm. Pétur Blöndal, sem er hinn vænsti maður, er mér oft leiðarljós að því leyti að ég veit að þegar hann er á móti máli þá er ég með því. Þar eru skoðanaskipti okkar skýr alveg eins og það á kannski líka við um hina róttæku vinstri menn að þegar þeir eru á móti þá veit ég að ég er með, því að ég er staddur annars staðar á hinu pólitíska sviði. (Gripið fram í.) Gæfa okkar Íslendinga liggur í nýtingu auðlinda okkar til lands og sjávar. Íslendingar væru fátæk þjóð ef þeir hefðu ekki lært á síðustu 100 árum, síðustu 50 árum að nýta sínar dýrmætu auðlindir bæði til lands og sjávar, orkuna og aflið í vötnum og fossum. Þetta hefur skapað þær auðlindir sem okkur eru dýrmætastar og gera okkur að ríkri og framtakssamri þjóð sem býr yfir þekkingu fram yfir svo margar aðrar þjóðir af því að við höfum tekist á við að nýta þessar auðlindir.

Hér er um stórt mál að ræða sem þarf að fá góða meðferð, bæði í umræðunni hér og ekki síður í nefndinni og því er það í raun tilhlökkunarefni að fá það í hendur og að hægt sé að fara að ræða það. Það minnir kannski á annað og stærra mál sem við framsóknarmenn höfum lagt fram og er hluti af þessu máli einnig en það er breyting á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem verður rætt hér eftir helgina, um náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti, eru þjóðareign eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum. Þetta er frumvarp sem við höfum lagt fram og mér sýnist að fari svo að Sjálfstæðisflokkurinn styðji það, muni það mál einnig geta átt greiða leið í gegnum þingið með mikilli samstöðu þegar þetta er komið fram með þessum hætti.

Um þetta mál vil ég segja að í fyrsta lagi er lagt til í frumvarpinu að gerð verði krafa um að sérleyfis- og samkeppnisþættir skuli reknir í aðskildum fyrirtækjum. Er þessi stefna mörkuð til að tryggja jafnan aðgang framleiðenda að flutnings- og dreifikerfum raforku og koma í veg fyrir samkeppnishindranir sem kunna að leiða af því að sérleyfis- og samkeppnisstarfsemi er rekin innan veggja sömu fyrirtækja. Er þó miðað við að ákvæði þessi verði ekki látin ná til minnstu orkufyrirtækjanna og eru mörkin sett við árlegar rekstrartekjur sem eru 2 milljarðar kr. eða minni. Er þar litið til kostnaðar sem fylgir slíkum aðskilnaði og uppskiptingu fyrirtækja. Þetta ákvæði er í samræmi við vilja okkar framsóknarmanna sem við sýndum í verki á Alþingi, fyrst með þingsályktunartillögu sem Finnur Ingólfsson, fyrrverandi iðnaðarráðherra, lagði fram á 122. löggjafarþingi og síðar með frumvarpi til raforkulaga sem Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi iðnaðarráðherra, lagði fram á 126. löggjafarþingi. Hvorugt þessara mála náði fram að ganga. Meðal annars var þá andstaða við þessi atriði frá ýmsum aðilum úr orkugeiranum og víðar, þannig að tímarnir og viðhorfin hafa breyst. Í frumvarpinu sem varð síðar að raforkulögum 2003, sem Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi iðnaðarráðherra, mælti fyrir, var hins vegar kveðið á um bókhaldslegan aðskilnað sérleyfis- og samkeppnisstarfseminnar. Er það í samræmi við þá raforkuskipan sem þá var við lýði hjá Evrópusambandinu. Hert hefur verið á þessum kröfum um aðskilnað í síðari tilskipun en mér sýnist að ekki sé enn gert ráð fyrir fullum aðskilnaði og uppskiptingu fyrirtækja.

Í öðru lagi er lagt til í frumvarpinu að í lögum verði kveðið á um að ríki, sveitarfélögum og fyrirtækjum sem alfarið eru í þeirra eigu verði óheimilt að framselja varanlega beint eða óbeint og með varanlegum hætti vatns- og jarðhitaréttindi. Undanþága frá þessu er framsal frá ríki og/eða sveitarfélögum til félaga í þeirra eigu sem sérstaklega eru stofnuð til að fara með eignarhald þessara réttinda. Þarna er um ágætt mál að ræða en það má deila á þetta með sama hætti og oft hefur verið deilt á 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna sem kveður á um að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar. Rétt er að benda í þessu efni á samhengi við frumvarp sem við framsóknarmenn lögðum fram fyrir skemmstu sem er bæði í samræmi við stefnu framsóknarmanna og niðurstöðu auðlindanefndar sem skilaði niðurstöðum árið 2000, þ.e. frumvarpið sem ég minntist á áðan og rætt verður í næstu viku. Þar er gert ráð fyrir að náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti séu þjóðareign eftir því sem nánar sé kveðið á um í lögum og að ríkið fari með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þessara auðlinda og réttinda í umboði þjóðarinnar. Þær má ekki selja eða láta varanlega af hendi til einstaklinga eða lögaðila en veita má heimild til afnota eða nýtingar tímabundið og gegn gjaldi. Slík heimild njóti verndar sem óbein eignarréttindi.

Framsóknarmenn telja þetta frumvarp vera lykilforsendu þess að tryggja sameign þjóðarinnar á auðlindum hennar. Ljóst er orðið að skortur á ákvæði um þjóðareign á nytjastofnum á fiskimiðum á veigamikinn þátt í þeim deilum sem orðið hafa um stjórn fiskveiða og kvótakerfið, enda er það ekki talin nægjanlega traust lagastoð að setja slíka heimild inn í almenn lög eftir á. Stjórnarskrárákvæði tekur af allan vafa um eignarhald þjóðarinnar á náttúruauðlindum og ætti slíkt ákvæði alltaf að liggja fyrir áður en menn setja slík ákvæði inn í almenn lög. Þess vegna er mjög mikilvægt fyrir Alþingi Íslendinga að klára að byggja upp grunninn sem á að byggja lögin á.

Þá er rétt að geta þess að Samfylking og Vinstri græn hafa sömu sjónarmið í stefnum sínum svo ekki verður betur séð en að meiri hluti sé að myndast fyrir málinu á þinginu eins og ég gat um. Ef svo er að Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú fallist á að ganga þetta langt með opinbert eignarhald á auðlindum í sérlögum, sem ég efaðist um í upphafi vegna umræðu þingmanna flokksins, ætti mönnum ekki að verða skotaskuld úr því að samþykkja sambærileg efnisleg ákvæði í stjórnarskrá.

Varðandi ákvæði um lágmarkseign annarra opinberra aðila eða sveitarfélaga á auðlindum sem þegar eru í þeirra eigu, þá á ekki að vera erfitt að setja slík ákvæði í stjórnarskrá og er þar um réttari aðferðir að ræða eins og ég hef getið um. Við eigum að opna á að gerðar verði breytingar í þessa veru við stjórnarskrárfrumvarp okkar framsóknarmanna, enda er ekki mikið hald í slíku ákvæði í sérlögum af þessu tagi því að frá þeim má víkja með sérlögum hverju sinni ef Alþingi kýs svo.

Í frumvarpi iðnaðarráðherra er heimilt að veita tímabundinn afnotarétt af auðlindanýtingu til allt að 65 ára í senn. Þar er um afar langan tíma að ræða, ég vek athygli á því. Til að mynda er yfirleitt miðað við 30–50 ár í afskriftatíma virkjana. Það má því segja að þetta jafngildi nánast ótímabundnu leyfi, þannig að ég tel mjög mikilvægt að fara yfir þennan gríðarlega langa tíma. Það má auðvitað velta því fyrir sér hvort einhver tilgangur er í þessu. Við framsóknarmenn erum þeirrar skoðunar að Landsvirkjun eigi að vera í eigu þjóðarinnar. Er eitthvað á döfinni í stjórnarflokkunum að opna fyrir einkavæðingu Landsvirkjunar? Það væri gaman að heyra viðhorf hæstv. ráðherra hvað það varðar.

Þá er lagt til að forsætisráðherra verði falið að skipa nefnd til að fjalla um endurgjald fyrir afnotarétt í eigu ríkisins en hæstv. forsætisráðherra fer þegar með það umboð varðandi nýtingu réttinda í þjóðlendum. Skal nefndin einnig huga að því með hvaða hætti verði valið á milli þeirra sem áhuga hafa á að nýta auðlindirnar. Þessi nefnd á að skila tillögum 1. mars 2009. Um þetta er það að segja að í frumvarpi Jóns Sigurðssonar, fyrrverandi iðnaðarráðherra, um breytingu á lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, með síðari breytingum, er kveðið á með skýrari hætti hvernig valið verði á milli þeirra sem áhuga hafa á að nýta auðlindir. Þarna er því um tvíverknað að ræða en mér vitanlega kom ekki fram í umræðum um frumvarpið í fyrra nein gagnrýni á þessa útfærslu, enda hafði náðst þverpólitísk sátt um þær tillögur í nefnd iðnaðarráðherra sem skipuð var í apríl 2006 og skilaði af sér viðamikilli skýrslu í október eins og hv. þingmenn þekkja.

Í þriðja lagi er lagt til að kveðið verði á um að fyrirtæki sem reka starfsemi á orkusviði sem byggir á sérleyfum, þ.e. raforkuflutningi, raforkudreifingu og rekstri hitaveitu, skuli a.m.k. vera að tveimur þriðju hlutum í eigu opinberra aðila. Þetta er í samræmi við ákvörðun um sölu hlutar í Hitaveitu Suðurnesja í fyrra og í ágætu samræmi við almenna reglu í hlutafélagalögum. Þar eignast einkaaðili að vísu fyrir rest tæpan þriðjungshlut í Hitaveitu Suðurnesja og þar með væntanlega í auðlindum sem Hitaveita Suðurnesja á. Það breytir því ekki að sala á rúmlega 15% eignarhlut til einkaaðila hnekkir alls ekki eða raskar á nokkurn hátt samfélagslegu forræði yfir þessari eign sem var að tæplega 85% hluta í eigu sveitarfélaga suður frá. Þar kom sala annarra sveitarfélaga til sem breytti þessari stöðu og ég hef sagt að það hefði kannski verið rétt, miðað við þegar ríkið keypti Landsvirkjun og gekk til samninga við Akureyri og Reykjavíkurborg um það atriði, að það hefði auðvitað mátt gera þetta svona eftir á hinsegin því að þarna kom inn aðili sem bauð bæði hærra en nokkur átti von á og skapaði mikla samkeppni um þennan hlut Suðurnesjamanna. Suðurnesjamönnum er auðvitað mikið í mun að þetta mál komist á öruggan grundvöll.

Ég vil nefna af því að ég hef áhyggjur af einu sem ég las hér, það varðar 12. gr. frumvarpsins en þar segir að hitaveita skuli ávallt vera að lágmarki að tveimur þriðju hlutum í eigu opinberra aðila. Er hægt að sjá í frumvarpinu að aðeins sé átt við veitufyrirtæki — ég vil spyrja hæstv. iðnaðarráðherra um þetta atriði — sem hafa sérleyfi eða nær ákvæðið jafnframt samkvæmt laganna hljóðan til þeirra 200 hitaveitna sem talað er um á bls. 7 og einnig þeirra hitaveitna sem bændur kunna að vilja setja upp í framhaldinu í dreifbýli og annars staðar þar sem opinberir aðilar sjá sér ekki grundvöll fyrir rekstri hitaveitna? Er það ætlan hæstv. iðnaðarráðherra að þjóðnýta þessar 200 einkahitaveitur og banna byggingu nýrra hitaveitna? Mig langar að biðja hæstv. iðnaðarráðherra að skýra þetta atriði fyrir mér, hvort menn séu að stíga þarna skref sem væru mjög ófarsæl, (Forseti hringir.) því að margar þessar litlu hitaveitur eru mjög mikilvægar. Þær eru í einkaeign, í sameign og í hlutafélögum, þannig að ég held að það væri vont skref.