135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[18:53]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingar á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði. Ég lagði sérstaka áherslu á orðið „auðlinda“ vegna þess að mér vitanlega hefur það ekki verið skilgreint hvað það er.

Ég var eitt sinn á ferðinni í Mongólíu og þar er, eða var á þeim tíma allt land í almenningseigu, það var enginn sem átti það. Þar setti heldur enginn niður kartöflur eða neitt slíkt vegna þess að það gat hver sem er skorið upp og þar var ekkert gert, það var ekki byggt neitt heldur vegna þess að menn gátu ekki treyst því að þeir ættu landið sem byggt var á. Við þekkjum öll söguna um Sovétríkin sem byggðu á áætlanagerð og ríkisbúskap og ollu mikilli fátækt og hrundu svo að lokum og það þarf ekki að hafa mörg orð um þá sögu alla.

Hér á Íslandi höfum við haft ríkisrekstur á mjög mörgum sviðum, ótrúlega mörgum sviðum lengi vel. Við erum með orkugeirann nánast allan í ríkisrekstri — ja, í byrjun var hann í einkarekstri, en menntakerfið, heilbrigðiskerfið og bankakerfið var lengi vel í ríkisrekstri, allt niðurnjörvað og gaf engan arð, borgaði lág laun og skilaði engu til þjóðfélagsins.

Svo var bankakerfið einkavætt og hvað gerðist, herra forseti? Það fór að skila miklum hagnaði, mjög miklum hagnaði, sem sýnir mér og segir mér að ríkisrekstur sé ekki af hinu góða.

Það frumvarp sem hér er til umræðu gengur út á ríkisrekstur, áætlanagerð í anda Sovétríkjanna liðnu. Þar segir á 4. síðu, með leyfi herra forseta:

„Tilgangur frumvarpsins er að setja reglur um eignarhald auðlinda í opinberri eigu og skýra mörk samkeppnis- og sérleyfisþátta í starfsemi orkufyrirtækja. Er það gert til að tryggja að öll mikilsverðustu vatns- og jarðhitaréttindi sem nú eru í eigu ríkis eða sveitarfélaga, beint eða óbeint, haldist áfram í eigu þessara aðila.“

Það á sem sagt að vera ríkisrekstur áfram.

„Það er engum vafa undirorpið“ segir enn fremur „að skynsamleg nýting orkuauðlindanna hefur mikla efnahagslega þýðingu fyrir Ísland“.

Skyldi það nú vera, að fenginni reynslu í Sovétríkjunum og hér á Íslandi áður fyrr, að besta nýting fáist í ríkiseign? Ég vil leyfa mér að efast stórlega um það.

Svo stendur enn fremur í greinargerð með frumvarpinu:

„Á vegum ríkisstjórnarinnar er nú unnið að gerð rammaáætlunar um verndun og nýtingu náttúrusvæða þar sem leggja á mat á og flokka virkjunarkosti,“ o.s.frv.

Þetta var líka gert í Sovétríkjunum, það hétu fimm ára áætlanir. Menn við græn skrifborð gerðu áætlanir um hvernig ætti að reka allt efnahagslífið, þ.e. þennan þátt þess. Þetta er bara akkúrat nákvæmlega eins og í Sovétríkjunum, ríkisrekstur ofan frá.

Ég spurði áðan í andsvari: Af hverju stofna menn ekki skóverslun ríkisins þar sem væru embættismenn sem seldu skó? Það er mjög nauðsynlegt að eiga skó á Íslandi, ekki spurning. Ég mundi ekki vilja vera skólaus í dag. Með sömu rökum og hér er sagt að raforkan og orkan sé nauðsynleg fyrir almenning eru skór ekki síður nauðsynlegir. Ég hugsa að það þyrfti nú að búa til skóna líka hérna á Íslandi þannig að það yrði stofnuð skóverksmiðja ríkisins líka. Svona mætti maður fara inn á öll svið mannlegrar virkni, það má færa rök fyrir því að allt þetta sé nauðsynlegt og eigi að vera á höndum ríkisins og undir opinberri fimm ára áætlun, rammaáætlun ríkisins.

Hvað með símann? Hvað með netið? Hvað með fjármálakerfið? Nú eða bújarðirnar, það er eiginlega fyrsta auðlindin sem varð til hér á Íslandi, það var moldin. Á þetta ekki allt að vera í ríkiseign, er þetta ekki allt saman nauðsynlegt fyrir okkur? Með nákvæmlega sömu rökum ætti þetta allt að vera í ríkiseign og í ríkisrekstri.

Ég undirstrikaði sérstaklega hérna í byrjun hvað væri auðlind. Ég held að ef maður skoðar það svona, reynir að skoða þetta heimspekilega þá hugsa ég að auðlind Íslands hafi lengi vel verið eingöngu moldin, ekki einu sinni fiskimiðin. Það var svo dýrt að sækja fiskinn, það kostaði svo mörg mannslíf á hverju einasta ári að það er varla hægt að tala um það sem auðlind. En moldin, hún skilaði, hún var auðlind og í einkaeigu, nema það sem kirkjan sölsaði undir sig með tíundinni.

Seinna urðu fiskstofnarnir auðlind þegar menn komu upp vélbátum, öllum í einkaeign sem betur fer. Virkjun fallvatna kom mikið, mikið seinna, fallvötnin voru lengi til trafala. Þau kostuðu mörg mannslíf, þau voru óbrúuð og þau voru til bölvunar í sveitum landsins. (Gripið fram í: En grasið?) Grasið byggði á moldinni, að sjálfsögðu. Fallvötnin voru til bölvunar og það er fjöldi Íslendinga sem hefur týnt lífi sínu í fallvötnum landsins, þau voru ekki auðlind á nokkurn einasta máta — fyrr en mannsvitið og hugvitið og fjármagnið og vinnuaflið samantengt gat breytt því í auðlind og við fórum að virkja. Fyrst fallvötnin og síðan varmaorkuna og þetta var allt saman fyrst í einkaeigu, þ.e. rafveiturnar litlu, en síðan vegna þess hve verkefnin voru stór, fór þetta í ríkiseigu. Svo kom kvótakerfið og þá myndaðist allt í einu auðlind þegar var farið að skammta aðgang að miðunum og aðgangurinn varð verðmæti.

Þá fórum við að tala allt í einu um óefnislegar eignir og þá vandaðist dæmið og það á eftir að vandast enn meira. Tíðnisvið rafsegulbylgna mun verða auðlind og er þegar orðin auðlind, það er farið að bjóða milljarða í það. Losunarkvótar verða sennilega miklu, miklu verðmætari hér á Íslandi þegar Kárahnjúkavirkjun fer að mala hreina orku sem ekki er bundin kolefniskvótum, þá verður það óskapleg auðlind fyrir Íslendinga, miklu, miklu meiri en sjávarútvegurinn og kvótinn þar. Það verður því líka auðlind og svo náttúrlega óefnislegar eignir eins og forrit. Bill Gates, ríkasti maður heims, hefur aldrei selt, ekki að neinu ráði, efnislegar eignir. Það er bara óefnislegt af því að það er hægt að flytja þetta allt saman með rafeindum eftir vírum. Svo er náttúrlega góð stjórnun, stjórnunarvísindi, líka orðin auðlind. Mannauðurinn er í einkaeign og hann er auðlind, að sjálfsögðu, menntun og því um líkt. Og svo umhverfi fyrirtækja, skattaumhverfi, það er líka auðlind, fjármálaeftirlit o.s.frv.

Frumvarpið fjallar því í rauninni um afskaplega lítinn þátt auðlinda þó að það heiti breyting á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði.

Það var komið inn á hérna, ég held að það hafi verið hv. þm. Helgi Hjörvar sem nefndi það að það er ekki gott að ríkið sé bæði eignaraðili og eftirlitsaðili. Það kom einmitt í ljós, frú forseti, þegar bankarnir voru einkavæddir. Áður en bankarnir voru einkavæddir sagði enginn neitt um spillingu eða eftirlit með þeim eða svoleiðis, en eftir að þeir voru einkavæddir komu miklar kröfur og réttmætar um eftirlit með þeim af því að þá var ríkið í eftirlitshlutverki en ekki eigandi. Það er nefnilega dálítið erfitt að gagnrýna sjálfan sig þegar menn eru bæði eigendur og framkvæmdaraðilar. Það tel ég vera aðalrökin fyrir því að ríkið eigi ekki að vera að vasast í orkugeiranum.

Í kringum orkugeirann hefur myndast mikil verðmæt þekking og það var nú það sem menn voru að deila um í Orkuveitu Reykjavíkur: Hvernig getum við komið þessari þekkingu í verð, sérstaklega þekkingu á varmavirkjunum, þar sem menn hér á landi eru búnir að leysa alls konar vandamál með tæringar, eiturefni og annað sem kemur upp um þessar holur? Þessi þekking er mjög verðmæt en hún er náttúrlega í höfðum starfsmannanna, hún er hvergi annars staðar, þannig að það er mjög erfitt að koma henni í verð. Auðvitað eigum við að reyna eins og við mögulega getum að koma henni í verð og það mundi að sjálfsögðu gerast ef þetta væri í einkaeigu allt saman. En það er ekki í einkaeigu og þess vegna urðu þessi læti í kringum Orkuveituna þar sem voru miklir peningar, opinberir peningar, peningar sem enginn á en sumir vildu ásælast. Það er nefnilega vandinn. Vandinn í REI-dæminu var ekki sá að þetta væri eitthvert opinbert fyrirtæki eða einkafyrirtæki heldur að þarna var fé sem enginn átti og það er náttúrlega alltaf vandamál.

Hér hefur margoft verið talað um, og í þessum háa sal tala menn oft fjálglega um þjóð og ríki, almenning, ég og mig og mína o.s.frv. Menn virðast virkilega halda að þjóð sé sama og ríki. Ríki er lögpersóna, ríki innheimtir skatta af einstaklingnum og í síðasta lagi þá ætti mönnum að vera ljóst að ríki er ekki sama og þjóð, því að einstaklingurinn skal sko borga skattana þó að hann sé að innheimta hjá sjálfum sér, samkvæmt kenningu þeirra sem telja að ríki sé sama og þjóð. Ætli hann mundi nú ekki sleppa því ef það væri sama sem? Ætli hann mundi bara ekki segja: heyrðu, láttu mig í friði, láttu sjálfan mig í friði, ef ríkið væri sama og þjóð? Svo tala menn líka um almenning í sömu andránni, algjörlega óskilgreint allt saman.

Það er ýmislegt gott í þessu frumvarpi, t.d. með leigutímann, nú má fara að leigja. Ég hefði talið að það ætti að vera mikið lengri tími vegna þess að 65 ár er svo stuttur tími að virkjanir, stórvirkjanir eru varla farnar að borga sig. Þó að það sé afskriftartími upp á 40 ár, svona venjulega, þá vita allir að jarðgöngin á Kárahnjúkum endast sennilega í 200 ár, og það vita allir að stór stífla endist í mörg hundruð ár ef ekkert kemur upp á. Vélarnar og allt slíkt endist mikið lengur. Við erum að tala um miklu lengri endingartíma og hættan er sú þegar menn hafa þennan tíma stuttan að umgengnin verði ekki sem skyldi. Menn munu segja: Ég þarf að ná inn öllum arðinum á 65 árum, í staðinn fyrir að nota eðlilegar afskriftir sem væru mikið lengri.

Ég minni á að lóðir undir íbúðarhúsnæði í sveitarfélögum eru oft leigðar til 99 ára. Ég hefði talið að það væri eðlilegt. Mér skilst að Hong Kong hafi verið leigð til 99 ára á sínum tíma. 99 ár er mjög langur tími í lífi einstaklinga og fyrirtækja en stuttur tími í lífi þjóðar og það ættu menn að hafa í huga.

Það getur vel verið að þegar borgarinn fer að beita hyggjuviti sínu geti hann nýtt þetta frumvarp til þess að koma á ákveðinni einkavæðingu í orkugeiranum, það má vel vera. Og það má vel vera að þessi 65 ár séu ekki svo stutt að menn sjái hag sinn í því að virkja á 65 árum. Svo getur vel verið að hv. iðnaðarnefnd komist að þeirri skynsamlegu niðurstöðu að lengja þessi 65 ár upp í 99 ár. Þá getur vel verið að þetta sé bara hið besta mál. Þá getur vel verið að einkaaðilar fari nú að nota þessa möguleika og beita hyggjuviti sínu og skynsemi til þess að ná fram jafnmiklum árangri og fjármálageirinn hefur náð eftir að hann var einkavæddur þannig að þetta frumvarp verði til góðs.

Svo vil ég benda þeim sem hafa svona ofurtrú á áætlanagerð, rammaáætlun og slíku á það, að ef einhver hefði árið 1930 litið 100 ár fram í tímann og reynt að ímynda sér hvernig framtíðin yrði, hann hefði örugglega spáð vitlaust. Það gerir það að verkum að sovésk áætlanagerð stenst aldrei, sem betur fer.