135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

staða efnahags-, atvinnu- og kjaramála.

[15:15]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er ekkert nýtt að íslensk stjórnvöld þurfi að beina allri athygli sinni að stjórnun efnahagsmála. Sá vandi sem steðjar nú að þjóðarbúinu er margþættur og að stórum hluta á hann rætur að rekja til atburða sem eru að litlum hluta á valdi okkar Íslendinga.

Niðurskurður á þorskheimildum hefur þegar tekið að segja til sín í hinum dreifðu byggðum landsins og sú óvissa sem verið hefur um loðnuvertíð eykur enn á þann vanda sem sjávarbyggðirnar horfast nú í augu við. Við þessum vanda hefur ríkisstjórnin reynt að bregðast með margvíslegum mótvægisaðgerðum sem einkum miða að því efla grunnstoðir byggðanna, t.d. með því að stórauka fjármuni til samgöngumála og auka gríðarlega fjármuni til menntamála til að auðvelda aðgengi að menntun í heimabyggð. Aðgerðirnar snúast því bæði að því að leysa þann bráðavanda sem nú er uppi en ekki síður að leggja grunn að styrkari stoðum byggðanna til langs tíma.

En það er rétt að vera á varðbergi þegar kemur að umræðu um stöðu byggðanna. Ríkisstjórnin mun standa vaktina þar. Komið hefur fram hjá ráðherrum ríkisstjórnarinnar að mikill vilji er til að gera svo.

Alvarlegasti vandinn sem nú steðjar að efnahagslífi okkar Íslendinga felst í alþjóðlegu lánsfjárkreppunni sem nú fer dýpkandi og hefur farið dýpkandi á undanförnum mánuðum og ekki sér fyrir endann á, því miður. Geta íslensku bankanna til að fjármagna starfsemi sína á viðunandi kjörum er stórlega skert og þeirra bíður mikið verk að sannfæra fjármálamarkaðinn um að viðskiptamódel þeirra sé ábyrgt og að þeir standi traustum fótum.

Jafnframt skiptir miklu máli að ríkisvaldið geri það sem í þess valdi stendur til þess að aðstoða bankana við að komast í gegnum þann skafl sem fram undan er. Styrk staða ríkissjóðs, lágir skattar, miklar náttúruauðlindir og öflugir lífeyrissjóðir, allt eru þetta þættir sem skipta máli þegar kemur að því að meta getu íslenska hagkerfisins til að standa undir nægri verðmætasköpun. Sú ríkisstjórn sem nú situr sem og þær síðustu hafa búið svo um hnútana að við höfum töluverða getu til að takast á við þessi vandamál.

Það er eðlilegt að augu manna beinist að Seðlabanka Íslands. Bankanum voru sett verðbólgumarkmið með nýjum lögum árið 2001 og ýmislegt hefur reynst bankanum mótdrægt og það hefur gengið illa að ná þessu setta marki. Ég er þeirrar skoðunar að þegar fjármagn getur flust óhindrað á milli landa og markaðssvæða þá geti ekkert ríki til langs tíma haldið uppi þeim vaxtamun sem nú ríkir milli íslensku krónunnar og annarra helstu erlendu mynta. Ekkert atvinnulíf og þar með engin heimili geta staðið undir slíkum vöxtum til langs tíma. Þá mun eitthvað gefa eftir.

Það verður ekki hjá því komist að hafa áhyggjur af því að Seðlabankinn virðist nú miða stýrivexti sína fyrst og fremst við það hvað þurfi til þannig að gengið gefi ekki eftir. Sú hugsun er ekki lengur ráðandi að stýrivextirnir séu tæki sem virki tólf til átján mánuði fram í tímann. Þessi þróun setur vissulega spurningarmerki við þá gengisstefnu sem mörkuð var árið 2001.

Það má ljóst vera að ef bönkum tekst ekki að fjármagna sig með eðlilegum hætti þá mun það leiða til ýmissa vandamála í hagkerfi okkar og það mun verulega kreppa að íslenskum fyrirtækjum. Það skiptir þess vegna mjög miklu máli að góð samstaða náist á milli ríkisvaldsins, Seðlabankans og atvinnulífsins alls um að grípa til þeirra aðgerða sem skipta máli til þess að við komumst í gegnum þau vandamál sem fram undan eru.

Bent hefur verið á að það sé nauðsynlegt fyrir bankann að horfa nú frekar á þau markmið sem snúa að stöðugleika fjármálakerfisins en verðbólgumarkmiðin. Það er ekki þar með sagt að gefa eigi verðbólgumarkmiðið frá sér en þetta er spurningin um þær áherslur sem bankinn vill setja í starfi sínu núna á næstu mánuðum og missirum.

Fram undan er því varnarbarátta í íslensku efnahagslífi og það mun reyna á alla, verkalýðshreyfinguna, atvinnurekendur, sveitarfélögin, ríkið og Seðlabankann til að komast í gegnum þann vanda sem blasir við. Þrýstingur er á verðbólguna vegna hækkunar á innflutningi og kjarasamningarnir sem gerðir voru á dögunum, þótt skynsamlegir hafi verið og eins skynsamlegir og hægt var að gera þá, munu að vissu leyti auka á verðbólguna.

Það er því mikilvægt að það sé skilningur á því að þegar kemur að kjarasamningum (Forseti hringir.) hins opinbera á næstunni að ekki er svigrúm til þess að auka kaupmátt. Þeir kjarasamningar verða að vera þannig úr (Forseti hringir.) garði gerðir að þeir verji kaupmáttinn og komi í veg fyrir að það dragi úr kaupmætti, ekki bara opinberra starfsmanna heldur allra annarra.