135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

óháð áhættumat vegna Urriðafossvirkjunar, Holtavirkjunar og Hvammsvirkjunar í Þjórsá.

52. mál
[17:57]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir það mál sem hann flytur hér ásamt meðflutningsmönnum. Við í umhverfisnefnd munum að sjálfsögðu taka það til efnislegrar umfjöllunar og leita eftir umsögnum um það eftir atvikum. Mikilvægt er að það sé tekið upp ef efnislegar ástæður eru til að hafa áhyggjur af öryggi manna í tengslum við stórframkvæmdir eins og jafnvel er látið að liggja. Í mínum huga vakna þó fjölmargar efasemdir við flutning málsins, bæði um framsetningu þess og málflutning annan sem eðlilegt er að skoða í umfjöllun nefndarinnar.

Þar er kannski fyrst til að taka þetta um óhæðið en eins og hv. þm. Mörður Árnason vék að hafa menn iðulega rætt það í tengslum við mat á umhverfisáhrifum. Þá hafa þau sjónarmið stundum verið uppi að ekki sé rétt eða eðlilegt að framkvæmdaraðilinn sjálfur hafi forræði á matinu. En staðreyndin er sú að við höfum falið Skipulagsstofnun að hafa umsjá með því ferli, fara yfir mat á umhverfisáhrifum og gera kröfur um viðbótargögn, viðbótarupplýsingar og óháða athugun ef hún telur tilefni til þess. Það er ekki þannig að þaðan komi ekki eftirlit. Við þekkjum m.a., vegna þess að hér er um virkjunarframkvæmdir að ræða, frægan úrskurð Skipulagsstofnunar um Kárahnjúkavirkjun á sínum tíma þar sem stofnunin ákvað einfaldlega að leggjast gegn framkvæmdinni vegna þess að hún hefði í för með sér of margar neikvæðar afleiðingar til að hún væri réttlætanleg. Ég vil lýsa því meginsjónarmiði að þetta fyrirkomulag hafi að mestu reynst farsælt og að við eigum í öllum aðalatriðum að treysta á lög um mat á umhverfisáhrifum og á þá ágætu stofnun sem við höfum falið að hafa eftirlit með þeirri framkvæmd allri en hlutast ekki til með einstökum ályktunum um einstakar framkvæmdir á lokastigum þeirra.

Þegar hv. þingmenn tala um óhæði í slíkri athugun, á áhættumati, verður að spyrja: Í hverju er vanhæfi Landsvirkjunar þá fólgið? Það er þá væntanlega fólgið í því að hún er eigandinn að virkjunaráformunum og framkvæmdaraðilinn. En hver er þá hugmyndin með þingsályktunartillögunni? Hugmyndin með henni er sú að ríkið láti gera úttekt á verkefninu. En hvert er þetta ríki? Jú, þetta ríki er eigandi Landsvirkjunar, forráðamaður fyrirtækisins og sá aðili sem skipar stjórn þess sem svo aftur ræður forstjóra. Það er að ýmsu leyti sérstök hugmynd um óhæði að fyrirtækið sjálft sé ekki óháður aðili til að láta fara fram rétta og óhlutdræga rannsókn en eigandi þess sé hins vegar algerlega óháður og fullkomlega fær um að láta fara fram málefnalega og hlutlausa rannsókn.

Þetta varpar kannski ljósi á umræðu sem við áttum fyrir nokkrum dögum, ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, um virkjunarframkvæmdir og aðkomu ríkisvaldsins og hins opinbera að þeim. Ég vil sem umhverfisverndarsinni árétta þá skoðun mína að ég tel ekki að ríkið verði óháður umfjöllunaraðili með öllu um virkjunarframkvæmdir fyrr en það hættir sjálft að standa fyrir virkjunarframkvæmdum og umfjöllun ríkisins um virkjunarframkvæmdir verði ekki óháð að fullu fyrr en ríkið lætur einkaaðilum eftir að reisa virkjanir í þágu þeirrar iðnaðarstarfsemi sem eftir á að bætast við í landinu á næstu árum og áratugum. Eins og við kynntumst ágætlega vel í Kárahnjúkavirkjun var ríkisvaldið þar gríðarlega stór hagsmunaaðili og engum blöðum um það að fletta að pólitísku valdi var beitt á þeim tíma til að halla meðferð málsins. Ég held því að mótsögn sé í þeirri afstöðu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að leggja áherslu á að ríkið haldi áfram í virkjunarframkvæmdum en vera á sama tíma af umhverfissjónarmiðum á móti því að lengra sé gengið í þeim efnum sem kunnugt er.

Ég vil líka lýsa ákveðnum efasemdum um að draga í efa óhæði sérfræðinga eða vísindamanna. Það gerist auðvitað stundum í umræðum. Það er til að mynda gert með lögfræðinga og lögfræðiálit eins og við þekkjum og stundum er tilefni til. En ég hygg þó að í því sem hér er undir, áhættumati, sé kannski allra síst við því að búast að sérfræðingar séu ekki hlutlausir í umfjöllun sinni og reyni að leiða fram eftir vísindalegum sjónarmiðum þá réttustu og bestu niðurstöðu sem þeir vita. Hér er beinlínis mannöryggi í húfi þannig að við því er að búast að í engri umfjöllun annarri sé ríkari hvati til þess hjá þeim sem um eru að fjalla að vera hlutlausir og vandaðir í vinnubrögðum en einmitt við það að meta áhættuna.

Nú er ég ekki með því að segja að flutningsmenn séu að vega að starfsheiðri þeirra sem að verki hafa komið. Ég get ekki tekið undir með hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur í því. En óþægilega nærri því er farið, skulum við segja, og ég hef vissar efasemdir, og deili þeim með hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur, um að nálgast mál með þeim hætti á Alþingi. Einnig er ástæða til að vara við því að verið sé að ala á óþörfum áhyggjum eða ótta manna um öryggi sitt. Það er því mikilvægt að leggja áherslu á að ég held að ekkert í niðurstöðum áhættumatsins, sem fram er komið til þessa, gefi okkur ástæðu til að hafa umtalsverðar áhyggjur af manntjóni eða öðrum slíkum hræðilegum afleiðingum af þeim verkefnum sem þarna eru hugsanlega fram undan. Einnig er vert að hafa í huga að Landsvirkjun hefur langa reynslu af því að reisa mannvirki á svæðum sem eru umbrotasvæði og þar sem sérstaklega þarf að gæta að öryggi mannvirkja og hefur til þessa heldur verið kunn að því að ganga frekar lengra en skemur í því að tryggja öryggi þeirra mannvirkja og vanda til þess umbúnað allan. Ég veit að hv. flutningsmenn taka undir með mér um það.

Það sem ég held að hljóti að vera okkur nokkurt umhugsunarefni, jafnvel þó við séum umhverfisverndarsinnar eða virkjunarandstæðingar, eru vinnubrögð í málum sem þessum. Hér er um að ræða framkvæmdir sem hafa verið mjög lengi í undirbúningi og verða kannski aldrei að veruleika en hafa þó farið í gegnum lögformlegt mat á umhverfisáhrifum. Ég hygg að áhættumatið sé til komið vegna þess að eftir því hafi verið kallað af sveitarfélögum og almenningi í grenndinni, ég veit ekki betur en þessi verkefni hafi þegar farið í gegnum umhverfismat.

Á mörgum stigum málsins hefðu aðilar átt að grípa inn í ef ástæða væri til að hafa áhyggjur af öryggi í tengslum við þessi verkefni. Það er í fyrsta lagi hjá Landsvirkjun sem hlýtur, vegna þess að þetta eru hennar verkefni og hennar fjárfestingar, að hafa áhyggjur af öryggi ef tilefni er til, það er í öðru lagi Skipulagsstofnun, sem hefur eftirlit með umhverfismatsferlinu, og það eru í þriðja lagi öll þau sveitarfélög sem hér koma að máli. Ég held að það þurfi að færa fram mjög sterk efnisleg rök fyrir því að allir þeir aðilar sem komið hafa að málinu á neðri stigum hafi brugðist skyldum sínum og það með þeim hætti að það kalli á að Alþingi íhlutist eftir á með þessum afdrifaríka hætti um ferli málsins og ég tel ekki að hv. flutningsmenn hafi fært fram þau sterku og efnislegu rök sem réttlæti slíka vantraustsyfirlýsingu á öðrum aðilum máls.