135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

löggæsluskóli á Keflavíkurflugvelli.

371. mál
[14:42]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Þegar rætt var í ríkisstjórn sumarið 2006 um nýtingu húsakosts í Keflavíkurstöðinni eftir brottför varnarliðsins hreyfði ég því sjónarmiði að æskilegt kynni að vera að fá þar aðstöðu fyrir nýjan löggæsluskóla þar sem lögreglumenn, fangaverðir, tollgæslumenn og starfsmenn Landhelgisgæslu yrðu menntaðir og þjálfaðir. Ég skipaði síðan nefnd til að vinna að undirbúningi þessa skóla og starfar hún undir formennsku Ólafs Kristófers Ólafssonar, sýslumanns Snæfellinga. Nefndin hefur skilað mér áfangaskýrslu en hún hefur ekki lokið störfum og mun ljúka henni eftir að hafa fengið viðbrögð við ákveðnum atriðum í þessari áfangaskýrslu.

Virðulegi forseti. Ég er sömu skoðunar og árið 2006, að kannað skuli til hlítar að löggæsluskólinn fái aðstöðu í Keflavíkurstöðinni. Aðstaðan þar er í mörgu tilliti mjög góð fyrir skóla sem þennan eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda. Um leið og ég árétta þessa skoðun mína vil ég láta þess getið að forráðamenn Lögregluskóla ríkisins telja hann starfa við hinar bestu aðstæður á Krókhálsi hér í Reykjavík. Hafa þeir tekið dræmt hugmyndum um flutnings skólans. Málið verður ekki leitt til lykta af minni hálfu fyrr en nefnd Ólafs K. Ólafssonar sýslumanns hefur lokið störfum. Í þessu máli mun að sjálfsögðu verða að lokum lagt hlutlægt mat á hina ólíku kosti og komist að þeirri niðurstöðu sem þjónar best því markmiði sem að er stefnt.