135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

norræna ráðherranefndin 2007.

452. mál
[11:25]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Svarið er að við vitum aldrei um framtíðina. Það er eitt ár tekið í einu svipað og í fjárlögum okkar en það eru engar fyrirætlanir um að lækka þessar fjárveitingar, þannig að ég leyfi mér að túlka það sem nokkuð jákvætt svar, að vonandi haldist þessir peningar inni.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur áðan með 60 milljónirnar dönsku sem eiga að fara í hnattvæðingarverkefni að á móti á að skera niður í öðrum verkefnum. Þar hefur aðallega verið rætt um menningarsviðið og við sjáum eina afleiðingu þess hér varðandi Norræna félagið sem reyndar er búið að bjarga í horn miðað við stöðuna núna.

Það verður að segjast eins og er að það hefur gætt nokkurs titrings innan Norðurlandaráðs meðal þingmanna sem þar starfa af því að það er mjög óljóst í hvað fjármunirnir eiga að fara sem verið er að taka úr skilgreindum verkefnum og því sem við höfum verið að vinna að á undanförnum árum og færa þá í ný verkefni á hnattvæðingarsviðinu. Ég styð það að menn reyni að forgangsraða og bregðast við breytingum í hinu alþjóðlega samfélagi en þá verður að vera alveg skýrt í hvað fjármagnið á að fara. Maður er ekki tilbúin í að skera niður í mörgum verkefnum sem eru að vissu leyti ágæt og mikilvæg í eitthvað sem er óskilgreint. Þetta er óþægileg staða og það er alveg ljóst að það verður að greiða úr þessu nokkuð hratt. Á sama tíma vil ég segja að það þýðir ekki fyrir þingmenn að segja að þeir vilji forgangsraða og breyta áherslum en vilji svo ekki benda á einhver ný verkefni. Ráðherraráðið hefur verið að vinna með fjárlögin og maður finnur almennt í Norðurlandaráði að þar hefur gætt titrings af því að þetta er allt svo óljóst. Ég á ekki von á því að hæstv. samgönguráðherra geti svarað þessu en hæstv. samstarfsráðherra hefði líklega komist lengra en þó vil ég spyrja út í þetta og hvort samgönguráðherra sjái eitthvað fyrir sér í þessu máli.