135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

skýrslur um norrænt samstarf 2007.

452. mál
[13:48]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Svarið við henni er einfaldlega já. Það er afar nauðsynlegt að bregðast við. Þegar sigla hundruð skipa með gas og olíu norðan Íslands um sundið milli Íslands og Grænlands. Íslenska ríkið hefur ekki mótað sér stefnu í því hvernig það vill marka siglingaleiðir norðan Vestfjarða og það verður auðvitað að koma frumkvæði héðan um það hvernig við viljum marka þessar siglingaleiðir. Síðan verðum við að fara með þær tillögur til Alþjóðasiglingamálastofnunar IMO og fá þær samþykktar. En það breytir hins vegar ekki því að þó svo að við drægjum 20 sjómílna fjarlægð norður af Vestfjörðum um það sem skip mættu koma næst landi við að sigla hér um sundið þá eru hætturnar eftir sem áður fyrir hendi. Og eftir því sem við ýtum skipunum verulega norður fyrir 30–40 sjómílur þá aukum við hættuna vegna hafíssins.

Þetta er vandamál sem við Íslendingar þurfum að velta fyrir okkur og það er frá okkur sem þessar tillögur verða að koma. Þess vegna var hugsun okkar varðandi björgunarmál og þá umræðu alla afar nauðsynleg sem við tókum þátt í í Nuuk í Grænlandi síðasta sumar og ég hvet mjög til þess að menn fari að ræða þessi mál af mikilli alvöru vegna þess að nú getum við engan veginn ráðið við þessi skip. Við getum nánast sagt sem svo að ef olíuflutningaskip verður vélarvana 10–15 mílur norður af Vestfjörðum þá mun það einfaldlega enda uppi á Ströndum vegna austurstraumsins og síðan innstraums í Húnaflóa. Við mundum ekki ráða við það ef eitthvað væri að veðri. Við mundum ráða kannski við það í logni að forða því en ekki við aðrar aðstæður.

Ég tel því afar nauðsynlegt að horfa til þess hvernig ætlum að bregðast við og hvaða viðbúnað við þurfum að hafa (Forseti hringir.) burt séð frá því hvort við ætlum sjálfir að vinna olíuna hér á landi eða ekki.