135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

hagkvæmni og gæði í heilbrigðisþjónustu.

363. mál
[14:53]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn og fyrir umræðuna. Kjarni málsins er sá að ekkert bendir til þess út frá gæðaforsendum eða rekstrarforsendum að óhagkvæmt eða slæmt sé að semja við einkaaðila um heilbrigðisþjónustu. Ekkert bendir til þess, ekki nokkur skapaður hlutur.

Ég tek undir með hv. þm. Ástu Möller, ég átta mig ekki alveg á hvað sá annars ágæti þingmaður Valgerður Sverrisdóttir er að tala um þegar hún tekur undir með Vinstri grænum um einkavæðingu. Ef við tökum undir skilgreiningu Vinstri grænna á einkavæðingu þá er Salahverfið væntanlega einkavæðing. Öldrunarþjónustan, Grund og Hrafnista og annað slíkt, er nokkurn veginn öll einkavæðing. Læknavaktin er einkavæðing. Art Medica er einkavæðing og í þeirra huga eitthvert alversta mál í heimi að menn skuli voga sér að veita fólki þjónustu eins og þar er gert með afskaplega hagkvæmum og góðum hætti.

Menn geta leikið sér að því að kalla þetta einkavæðingu. Þegar við vorum að semja við Heilsuverndarstöðina um öldrunarþjónustu spurði blaðamaður mig, væntanlega eftir að hafa hlustað of mikið á vinstri græna: Ætlar þingmaðurinn eða ráðherrann að fara að einkavæða öldrunarþjónustuna? Ég varð að svara því til að mjög erfitt væri fyrir mig að einkavæða hana vegna þess að hún væri í einkarekstri. Ég get t.d. ekki farið að selja Grund eða Hrafnistu eða þessar stofnanir. Það er bara ekki nokkur einasta leið.

Ef menn vilja endilega rugla umræðuna þá er tjáningarfrelsi í landinu og það er ekkert sem sá sem hér stendur eða þingmenn stjórnarliðsins geta gert til þess að stoppa menn í að reyna að rugla og afvegaleiða umræðuna. En það bætir ekki umræðuna og það hjálpar okkur ekki neitt við að ná þeim markmiðum sem ég held að við séum öll sammála um.