135. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2008.

störf þingsins.

[10:39]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég tel ástæðu til að ræða þetta mikilvæga mál í upphafi fundar því að sannleikurinn er sá að verið er að gerbylta heilbrigðiskerfinu án umræðu á Alþingi. Það er ekkert annað en það. Heilbrigðisráðherra leggur sig fram um að vera sem minnst hér (Gripið fram í: Hvaða bull er þetta. Hann var hér ...) og maður fréttir bara úti í bæ hvað verið er að gera. Settur var á svið ágætis leikþáttur í fyrirspurnatíma þegar formaður heilbrigðisnefndar úr Sjálfstæðisflokki kom og spurði heilbrigðisráðherra spurninga sem sneru allar að því að ýta undir mikilvægi þess að einkavæða frekar í heilbrigðiskerfinu. Þetta er staðan. Við í heilbrigðisnefnd höfum varla haft nokkur mál til að vinna að í vetur því að þetta gerist allt (Gripið fram í.) án aðkomu þingsins.

Þetta er staðan og nú er ekki mjög langt eftir af þessu þingi. Vissulega er eitt mál á dagskrá í dag sem kemur frá heilbrigðisráðherra þannig að nefndin getur þá farið að vinna að því máli en einkavæðingin á að fara fram án umræðu á Alþingi. (Gripið fram í.)