135. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2008.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

410. mál
[12:21]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég set ekki fram efnislegar aðfinnslur þó að ærin tilefni séu til þegar talsmaður Sjálfstæðisflokksins í almannatryggingum, málefnum aldraðra og öryrkja, tjáir sig hér í þingsal. En ég vil leiðrétta það sem fram kom í máli hans og varðar lífeyrissjóðina og framreikning örorkubóta.

Hann sagði að í einum lífeyrissjóði væri ekki um slíkan framreikning að ræða, B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Það er rangt. B-beild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins framreiknar örorku en það er hins vegar takmarkað við það að örorkan sé sprottin upp úr starfinu, að rekja megi örorkuna til starfsins. Því aðeins er örorkan reiknuð og það er rétt að því leyti hjá hv. þingmanni að margir falla þá utan garðs sem hljóta örorku eða orkumissi. En ef hægt er að rekja örorkuna til starfans þá framreiknar B-deild lífeyrissjóðsins örorku eða réttindi viðkomandi einstaklings.