135. löggjafarþing — 80. fundur,  13. mars 2008.

stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl.

471. mál
[16:58]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka öllum þeim þingmönnum sem hafa rætt þetta mál fyrir málflutning þeirra. Það hefur komið fram að af fjórum þingmönnum tala þrír með þessu frumvarpi. Mér finnst það ágætt, þar á meðal er hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir sem lýsti yfir stuðningi Framsóknarflokksins við frumvarpið í heild sinni og meginþætti þess. Fyrir það ber auðvitað að þakka þannig að það virðist mjög víðtækur stuðningur við málið á Alþingi. Ég þakka einnig hv. síðustu tveimur þingmönnum fyrir þeirra innlegg í þessa umræðu.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson … (ÖJ: Ætlar þú ekki að þakka mér líka?) Ég var búinn að þakka hv. þingmanni sérstaklega fyrir fína ræðu. Það var kunnugleg umræða og við þekkjum hana. Hún er bara ágæt. Það eru sjónarmið hv. þingmanns sem ég ber mikla virðingu fyrir þó ég sé þeim algjörlega ósammála.

Ég hef aldrei verið hræddur við hlutafélagarekstur, hvað þá opinber hlutafélög, eftir þær breytingar sem við gerðum þar. Með þeim höfum við meira að segja inni ákvæði um að vel skuli hugað að kynjakvótum. Það er hið besta mál. Ég hef aldrei verið hræddur við hlutafélagarekstur og að því leytinu erum ég og hv. þingmaður ósammála þótt við séum sammála um margt í velferðarþjónustunni og öðru slíku. En í þessu skilur okkur að. Ég er ekki hræddur við breytingar á opinberum rekstri líkt og hér er verið að gera. Ég er alveg viss um að þær verða til góðs.

Ég ætla ekki á þessu stigi, virðulegi forseti, að fara yfir mörg af þeim atriðum sem hv. þingmaður ræddi um en meginlínur í frumvarpinu eru klárar. Það er grundvallaratriðið. Ég vil nú líta á það sem, ég ætla ekki að segja útúrsnúning, stríðni frá hv. þingmanni þegar hann segir að allt sér óklárt. Það er alls ekki svo.

Af því hv. þingmaður talaði um stéttarfélögin þá vil ég upplýsa að stjórn Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og flugvallarstjórinn kölluðu öll stéttarfélög til fundar fyrir nokkrum vikum og áttu góðar viðræður um framhaldið. Það var haldinn fundur með stéttarfélögunum. Ég hef átt tvo fundi, þótt það hafi ekki verið formlega með stéttarfélögunum, t.d. fjölmennan fund sem í gær með miklum fjölda starfsmanna þótt einhverjir hafi þurft að fara vegna þess að ég tafðist um klukkutíma út af þingflokksfundi, út af ágætu samgöngumáli sem svo var kynnt í dag. Ég vil nota tækifærið og biðja eitthvað af þeim starfsmönnum sem þurftu að fara áður en við komum, afsökunar á að koma svona seint. En stundum er það bara þannig að við ráðum ekki alveg tíma okkar. Þingflokksfundur tók lengri tíma en var ætlað og ég komst seinna af honum. Þannig að þetta var gert frá hendi stjórnarinnar.

Ég er ekki sammála því að málið sé sett þannig fram að allt sé óklárt. Við erum í mikilli vinnu og við höfum ekkert setið aðgerðarlaus í samgönguráðuneytinu eða annars staðar þótt frumvarpið hafi ekki komið fram fyrr en nú. Við höfum verið í miklum undirbúningi og hugsað um hvernig þetta á að vera.

Aðeins hvað varðar slökkviliðið, virðulegi forseti, af því að hv. þm. Ögmundur Jónasson ræddi um það og las hér upp úr lögum sem gilda um slökkvilið, þá er auðvitað mikill munur á því, virðulegi forseti, hvort við erum að tala um slökkvilið í sveitarfélagi og þær kröfur sem þar eru settar fram eða slökkvilið á flugvelli. Þar er mikill munur á og meira að segja mikill munur á útbúnaði. Það er einfaldlega þannig að slökkvilið í sveitarfélagi er ekki eins vel í stakk búið og slökkvilið á flugvelli til að koma til hjálpar ef eitthvað kemur upp á. Við skulum því ekki ímynda okkur það eitt augnablik að einhver vandamál séu með slökkviliðið eða að öryggisatriði séu ekki öll í hinu besta lagi á alþjóðaflugvelli sem við rekum. Það er algjörlega, vil ég segja, í toppstandi og með allar reglugerðir og lög varðandi flug og rekstur flugvalla þá getur það aldrei verið í neinu ólagi. Þannig eru flugvellir einfaldlega ekki reknir.

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði, að ég hef alltaf borið virðingu fyrir skoðunum hv. þm Ögmundar Jónassonar sem m.a. komu fram í dag og hann er á móti því að taka svona rekstur og breyta honum í hlutafélagsform, sama hvort það er hlutafélag eða opinbert hlutafélag. Hann hefur bara þá skoðun og ég ber virðingu fyrir þeim skoðunum en ég er engan veginn sammála honum.

Mér heyrist að það sé mjög mikill stuðningur við þetta mál á þinginu ef frá er skilinn þingflokkur Vinstri grænna, ef hv. þingmaður er með allan þingflokkinn að baki sér hvað það varðar. En ég ítreka að ég þakka öllum þeim þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni og fyrir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram. Eins og lög gera ráð fyrir þá gengur þetta frumvarp nú til nefndar. Nefndin tekur til við að vinna frumvarpið og fara í gegnum það. Umsagnaraðilar mæta og aðrir fá að senda inn umsagnir, þar með talið fulltrúar starfsmanna suður á Keflavíkurflugvelli. Ég óska bara eftir því að hv. samgöngunefnd vinni þetta mál vel eins og öll önnur mál sem koma til nefndarinnar.