135. löggjafarþing — 81. fundur,  31. mars 2008.

ástandið í efnahagsmálum.

[16:41]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ríkisstjórninni verður tíðrætt um mikilvægi þess að verja fjármálastofnanir áföllum en hún talar minna um heimilin. Hún talar minna um lágtekju- og millitekjuheimilin á Íslandi. Hún hefur meiri áhuga á því að einkavæða heilbrigðiskerfið en að bæta kjör öryrkja og aldraðra.

Það er ekki ofsögum sagt að lágtekjuheimili á Íslandi og millitekjufólk hafi áhyggjur af úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar. Við stöndum frammi fyrir efnahagsvanda. Hann er ótvíræður. Það er mikilvægt að hann verði rétt skilgreindur því að það er forsenda þess að á honum verði ráðin bót.

Að hluta til er þessi vandi utanaðsteðjandi. Sveiflur á hlutabréfamörkuðum á heimsvísu hafa að sjálfsögðu áhrif inn í fjármálakerfi okkar og þar með íslenska hagkerfið. Það er heldur ekki útilokað að gerð hafi verið skipuleg aðför að íslenskum fjármálastofnunum, ýmis teikn eru á lofti um að svo hafi verið. Við þessar aðstæður skiptir máli á hvern veg fjármálakerfið bregst við, eins stjórnmálamenn og þá að sjálfsögðu helst ríkisstjórn landsins. Hvernig hefur hún brugðist við? Helmingur ríkisstjórnarinnar hefur ekkert aðhafst eða sagt að vandinn væri ekki á sína ábyrgð. Þetta á við um Sjálfstæðisflokkinn. Hinn helmingur ríkisstjórnarinnar hefur engar tillögur lagt fram um úrbætur þar til nú að ráðherrar Samfylkingarinnar taka upp tillögur sem aðrir hafa fært fram, þar á meðal Vinstri hreyfingin – grænt framboð, um leiðir til að styrkja íslenska gjaldmiðilinn.

Ég verð nú að segja að það er ekki að ástæðulausu að menn hafa haft hér á orði við umræðuna að það gæti verið raunhæft efnahagsúrræði að setja talbann á ráðherra Samfylkingarinnar. Það eina sem frá þeim hefur komið á undanförnum vikum og mánuðum er að tala niður gjaldmiðil Íslands og þar með fjármálakerfið og efnahagskerfið í landinu. Menn geta ekki drepið á dreif þessari umræðu með aulafyndni og skírskotun í gömul barnaleikrit. (Gripið fram í.) Það er staðreynd að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur haft frumkvæði í efnahagsúrræðunum og það er núna fyrst að ríkisstjórnin, og þá ekki síst Samfylkingin, drattast nú til að taka þessar tillögur upp og reyna að gera þær að sínum. (Gripið fram í.) Svo kemur aulafyndnin frá Samfylkingunni upp aftur.

Við stöndum frammi fyrir raunverulegum vanda á Íslandi og við eigum að taka höndum saman um að reyna að ráða á honum bót. (Gripið fram í.) Við höfum sett fram tillögur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði til úrbóta og það mun ekki standa á okkur að mynda þverpólitíska samstöðu til að komast fram úr þeim vanda sem við Íslendingar (Forseti hringir.) stöndum óneitanlega frammi fyrir. Okkur hefur tekist það með samstöðunni og samtakamættinum þegar (Forseti hringir.) gefið hefur á bátinn og það mun takast nú ef vilji er til þess að koma til samstarfs (Forseti hringir.) við okkur.