135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

477. mál
[14:52]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Með frumvarpi þessu eru lagðar til þrenns konar breytingar á lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með síðari breytingum.

Í fyrsta lagi eru breytingarnar gerðar í þeim tilgangi að skerpa á þeirri skyldu sem kveðið er á um í gildandi lögum um skil á veiðiskýrslum. Veiðiskýrslurnar hafa afar mikilvægt rannsóknar- og upplýsingagildi við mat á ástandi og stofnstærð villtra fugla og spendýra og eru því afar mikilvægt tæki til að styrkja og bæta árangur í skipulagi og stjórnun varðandi friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum. Í lögunum er hvorki að finna sérstakan hvata né úrræði til að framfylgja þeirri skyldu sem kveðið er á um skil á veiðiskýrslum og er því lagt til í frumvarpi þessu að bætt verði úr því. Til að tryggja að skýrslum verði ávallt skilað er lagt til að útgáfa nýs veiðikorts sé óheimil hafi veiðikorthafi ekki skilað veiðiskýrslu frá fyrra tímabili. Þá er Umhverfisstofnun gert skylt að leggja 1.500 kr. á sérhverja leyfisgjaldsupphæð ef veiðikorthafi hefur ekki skilað veiðiskýrslu innan lögmæltra tímamarka. Lagt er til að Umhverfisstofnun auglýsi með áberandi hætti hvenær beri að skila veiðiskýrslum, með hæfilegum fyrirvara, svo síður þurfi að koma til greiðslu þessa aukagjalds.

Þá er í frumvarpinu í öðru lagi lagt til að gjald fyrir útgáfu á nýju veiðikorti verði hækkað úr 2.200 kr. í 3.500 kr. Upphæð gjaldsins var síðast breytt árið 2003 og er hækkunin tilkomin vegna verðlagsþróunar og þykir ástæða til að styrkja rannsóknir vegna veiða úr veiðikortasjóði en auknar rannsóknir eru forsenda fyrir því að bæta skipulag og stjórn á friðun og veiðum villtra dýra.

Í þriðja lagi er síðan lagt til að lögfest verði heimild fyrir Umhverfisstofnun til að halda leiðsögumannanámskeið vegna hreindýraveiða og jafnframt til að innheimta kostnað við slíkt námskeiðahald. Áríðandi þykir að taka af allan vafa um að Umhverfisstofnun sé heimilt að halda slík námskeið með tilheyrandi eðlilegri gjaldtöku en í gildandi lögum er slíkum ákvæðum ekki fyrir að fara. Það liggur fyrir að brýnt er orðið að halda námskeið fyrir leiðsögumenn vegna hreindýraveiða þar sem skortur er orðinn á leiðsögumönnum en samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum gætir vaxandi áhuga meðal manna að afla sér leiðsögumannsréttinda.

Virðulegur forseti. Ég hef rakið meginefni frumvarpsins. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfisnefndar til meðhöndlunar og afgreiðslu.