135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

virkjunarkostir á Vestfjörðum.

425. mál
[14:09]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Fram kom í umræðum um skýrslu iðnaðarráðherra um raforkumálefni að afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum er langverst á landinu öllu og ótryggast. Það liggur líka fyrir að raforkuframleiðsla í fjórðungnum er aðeins um 30% af raforkunotkun fjórðungsins og Vestfirðingar þurfa að treysta á raforku eftir flutningskerfi Landsvirkjunar eða Landsnets, um 60% eða ríflega það af raforkunotkun er flutt með streng vestur. Þess vegna hefur á undanförnum árum verið hugað að frekari virkjunarkostum á Vestfjörðum til að auka raforkuframleiðsluna í fjórðungnum og auka þar með afhendingaröryggi raforkunnar og auk þess líka að opna möguleika til atvinnusköpunar með þeim hætti sem menn hafa séð að mögulegt er annars staðar á landinu.

Á árinu 2000 og 2001 voru til athugunar virkjunarkostir á Glámuhálendinu, svonefnd Glámuvirkjun, og ég leyfi mér, virðulegi forseti, að hreyfa því máli á nýjan leik í ljósi þess að komin er ný ríkisstjórn og ég vænti þess að með henni hafi aukist áhugi ríkisstjórnar á atvinnumálum og raforkumálum á Vestfjörðum frá því sem verið hefur mörg undanfarin ár. Ég spyr því hæstv. ráðherra:

1. Hyggst ráðherra beita sér fyrir frekari athugun á virkjunarkostum á Vestfjörðum, svo sem Glámuvirkjun?

Sú virkjun mundi verða með 67 megavatta afli og framleiða um 400 gígavattstundir á ári sem er liðlega tvöfalt það magn sem Vestfirðir nota í dag. Virkjunin eða áformin, því þau hafa eðlilega ekki verið útfærð nákvæmlega, eru stórhuga og gera ráð fyrir 33 km jarðgöngum heilboruðum með safngöngum með 4 metrum í þvermál. Þau gera ráð fyrir miklu vatnasviði, um 188 ferkílómetrum, og miðlun vatns á milli vatna og verulegri fallhæð þar sem raforkan er tekin niður en það eru út af fyrir sig nokkrir möguleikar á því.

2. Hver er áætlaður kostnaður við Glámuvirkjun umfram sambærilega kosti annars staðar á landinu, miðað við fyrirliggjandi upplýsingar?

3. Hver yrðu helstu áhrif Glámuvirkjunar á val á virkjunarkostum utan Vestfjarða?