135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

rannsóknir og stofnstærðarmat Hafrannsóknastofnunarinnar.

[14:03]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Það er langt í það að ég fari að styðja núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Þó að ástandið á þorskstofninum sé skárra en Hafrannsóknastofnun heldur fram þá er staða margra annarra stofna vegna þess kerfis mjög slæm. Það er hægt að telja upp loðnu, það er hægt að telja upp síld og þess vegna hefur lítill árangur náðst í að byggja upp síldarstofna. Ég var 1990 að veiða síld og þá var kvótinn 120 þús. tonn en hann er ekki nema 150 þús. tonn í ár. Ástand ýmissa stofna eins og grálúðu, rækju og flatfisktegunda ýmissa er mjög slappt, fyrir utan það að við náum ekki árangri með þessu fiskveiðistjórnarkerfi og ég spái því að ýsustofninn verði hruninn eftir tvö ár.

Ég fékk það inn á tölvuna mína í morgun að einir 50 skipstjórar skora á stjórnvöld að auka við veiðar á þorski og það þarf að gera það strax, hæstv. ráðherra, gera það núna á meðan þessi göngufiskur er á Íslandsmiðum því að hann virðir enga landhelgi eins og ég kom að áðan. Þau 600 þús. tonn af þorski sem töpuðust fyrir sex árum eru kannski að skila sér núna og það er árangurinn sem við sjáum. Enn og aftur segi ég við ykkur að skyndilokanir á smáfiski, Íslandsmet í skyndilokunum á smáfiski, eru staðfesting á því að nýliðunin er í lagi.

Ég ætla svo að ljúka þessu með því að segja við hv. þm. Gunnar Svavarsson: Ég setti alltaf upp leikkerfin í handboltanum.