135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

524. mál
[16:57]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Alltaf kemur nú lífið manni dálítið á óvart. Ég er nú t.d. alveg viss um það þegar kommissararnir úti í Brussel voru að útbúa I. viðauka við EES-samninginn og hvetja til innleiðingar á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 178/2002 þá óraði þá aldrei fyrir því að á einni löggjafarsamkomunni þegar þetta yrði rætt snerist umræðan einkanlega um tvær tegundir, krókódíla og strúta.

En þannig kemur lífið manni stöðugt á óvart og þannig sjáum við hvað fjölbreytileikinn er mikill í umræðunni um innleiðingu ESB-gerðanna og segir okkur (Gripið fram í.) auðvitað að gagnstætt því sem alltaf hefur verið haldið fram þá hefur ESB náttúrlega einn mikinn kost. Það hefur þrátt fyrir allt skemmtanagildi og það skiptir auðvitað dálitlu máli og var hlutur sem við hæstv. iðnaðarráðherra gleymdum að taka fram í þeirri góðu Evrópunefndarskýrslu sem við skrifuðum ásamt fleirum, að ESB hefur ótvírætt skemmtanagildi. En það var auðvitað ekki búið að leiða það fram þegar skýrslan var gerð og verður kannski viðauki þegar seinni tíma saga verður skrifuð.

En mig langar þó aðeins að víkja að því sem komið hefur fram í þeirri efnislegu umræðu sem fram hefur farið um þetta mikla frumvarp. Það er alveg rétt sem hv. 4. þm. Norðaust. sagði að þetta er viðurhlutamikið mál og hv. þm. Guðni Ágústsson sem þekkir það mál vel í undirbúningnum ítrekaði það jafnframt að þetta er mjög viðurhlutamikið mál. Þess vegna er það alveg rétt að þetta er mál sem þarf fyrst og fremst góðrar skoðunar við í þeirri þingnefnd sem mun fá málið til efnislegrar meðhöndlunar sem er sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis. Þess vegna lögðum við áherslu á að reyna að hraða undirbúningi málsins án þess að að slegið væri af neinum kröfum um efnislegt innihald þessa mikla frumvarps.

Það er auðvitað mjög þýðingarmikið að við ljúkum þessu máli núna fyrir þinglok en þau verða í lok maí. Eins og kemur hérna fram þá tekur hluti af þessari löggjöf gildi í lok apríl ef frumvarpið verður samþykkt fyrir þann tíma. En annar hluti sem varðar þær stóru efnislegu breytingar, breytingar sem máli skipta og hafa raunveruleg áhrif hér á að langmestu leyti að taka gildi í októberlok 2009.

Mjög margar af þessum breytingum eru af því taginu að þær krefjast heilmikils undirbúnings. Tæknilegs undirbúnings sem lýtur m.a. að því sem hv. þm. Guðni Ágústsson gerði að umtalsefni sem er heilbrigðisþátturinn þar sem við ætlum auðvitað ekki að slá neitt af. Í því felst auðvitað neytendaverndin sem gengur sem rauður þráður í gegnum frumvarpið. Þess vegna er svo mikilvægt að við getum lokið lagasetningunni nú fyrir vorið þannig að hægt verði að taka til við þann undirbúning sem er nauðsynlegur en sem ekki er hægt að hefjast handa við af gagni fyrr en ákvörðunin Alþingis liggur fyrir. Það er ljóst mál og við þekkjum það að tíminn er fljótur að líða þegar við erum að tala um svona hluti og þess vegna skiptir það máli að við höfum tíma fyrir okkur til þess að ljúka þessu verkefni.

Hv. þm. Steingrímur Sigfússon spurði jafnframt um breytingar sem kunna að verða varðandi dýralæknaumdæmin. Það er alveg rétt og ég rakti það í ræðu minni og það kemur fram í frumvarpstextanum í hverju þessar breytingar felast og þetta er auðvitað mjög mikið grundvallaratriði. Grundvallaratriðið í þessari löggjöf er það að við erum að reyna að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra. Það er að sá sem er eftirlitsaðili sé ekki líka að praktísera. Þetta er grundvallaratriði og það er ekki hægt að komast fram hjá þessu almennt talað. Eftirlitsaðilinn á að vera óháður þeim sem er síðan starfandi úti á markaðnum og þess vegna er talið á grundvelli samþykktar Evrópusambandsins að ekki sé hægt að rugla þessu tvennu saman.

Við þekkjum það hins vegar að aðstæður hér á landi eru mjög sérstakar. Við erum með dreifbýlt land. Hér er fámenn þjóð og landbúnaðurinn er dreifður. Það er alveg ljóst mál að í ýmsum héruðum mun ekki vera hægt að hafa þessi skil alveg skýr. Þess vegna er opnað á það í 35. gr. þessa frumvarps að gefa heimild til ráðherrans að það megi fela opinberum eftirlitsdýralæknum að sinna almennri þjónustu við dýraeigendur á tilteknu svæði ef heilbrigði eða velferð dýra er stefnt í hættu og ef ekki fást dýralæknar til starfa. Þessi heimild er til gagnvart eftirlitsdýralæknunum en snýr ekki að sjálfum héraðsdýralæknunum. Þeir verða auðvitað að starfa algjörlega óháðir og þessi heimild nær sem sagt til eftirlitsdýralæknanna.

Varðandi spurningar hv. þingmanns um landamærastöðvarnar þá liggur sú ákvörðun ekki fyrir. En það er gert ráð fyrir því að landamærastöðvarnar hvað varðar kjötið verði að minnsta kosti í Reykjavík, Keflavík og ég hygg á Akureyri og reynslan verður auðvitað að leiða í ljós hvort þörf er á slíkum landamærastöðvum víðar.

Það er alveg ljóst mál að sá innflutningur á kjötvörum sem hér mun reyna á og öðrum slíkum vörum, verður mestur á höfuðborgarsvæðinu og þess vegna hygg ég að þetta fyrirkomulag muni duga. En þetta eru auðvitað hlutir sem menn verða að skoða.

Hér hefur verið rætt heilmikið um heilbrigðisþáttinn og það er auðvitað ljóst mál að þetta frumvarp felur í sér aukið eftirlit vegna þess að við erum að hverfa frá grundvallaratriðum sem hafa gilt varðandi innflutning á kjöti og slíkum afurðum, mjólk og eggjum, svo ég vitni nú í frumvarpið. Áður var þetta mjög einfalt. Innflutningurinn var bannaður. Það var út af fyrir sig hægt að gefa einhverjar heimildir en innflutningurinn var bannaður.

Núna er hins vegar verið að opna þetta. Þessi innflutningur verður heimill auðvitað að því gefnu að vörurnar uppfylli þær heilbrigðisreglur sem við setjum og settar eru á hinu Evrópska efnahagssvæði. Þetta er algjör grundvallarbreyting. Þetta er stórbreyting sem ég hygg að menn eigi eftir að finna stað og átta sig á þegar fram í sækir.

Þetta þýðir það að eftirlitskostnaðurinn verður meiri og það er gerð grein fyrir því hér í kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins í hverju sá kostnaður er fólginn. Til þess að undirstrika það að auðvitað var mönnum ljóst í hvað stefndi er gert ráð fyrir því á fjárlögum nú þegar að setja til viðbótar sérstaklega 70 millj. kr. til þess að standa undir þessum aukna eftirlitskostnaði.

Virðulegi forseti. Í sjálfu sér þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta af tilefni þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram. Eins og ég sagði í upphafi er ástæða til þess að leggja áherslu á að málsmeðferð sé sem vönduðust í þessum efnum. Það munu koma upp ýmis álitaefni sem ekki er unnt að svara í 1. umr., þeim verður auðvitað fyrst og fremst svarað með vandlegri yfirferð sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar sem ég treysti afskaplega vel fyrir því verki.