135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[18:00]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Alltaf skal það heita eitthvað, „NATO-væðingarstefnan“. Ísland gerðist aðili að NATO 1949 og hefur þá væntanlega NATO-væðst á þeim árum. Það sem við erum að gera hér á Íslandi, og ætti auðvitað að vera fagnaðarefni sérstakt, er að við erum að taka yfir þau verkefni sem áður var sinnt af Bandaríkjamönnum hér á Íslandi. Við erum sjálf að taka yfir okkar eigin varnir, taka á þeim með ábyrgð og sinna þeim. Það þarf enginn að láta sér detta í hug að það sé alveg útgjaldalaust að gera það, að sjálfsögðu ekki. En sem sjálfstæð og fullvalda þjóð hljótum við að fagna því að þannig er nú komið og nú er ekki her lengur í þessu landi. Það hlýtur að vera fagnaðarefni og er mikil breyting fyrir okkur öll.

Varðandi stálið og hernaðarhyggjuna vita auðvitað allir að það eru ekki hernaðarlegar lausnir á málum. Mál verða ekki leyst með hernaði, það eru alltaf pólitískar lausnir sem verða að finnast á öllum málum. Hins vegar getur sú staða verið uppi í löndum — eins og er í Afganistan núna — að það er ekki nokkur vinnandi vegur að sinna uppbyggingarstarfi í því landi án þess að tiltækar öryggissveitir séu þar sem geta þá veitt fólki skjól og vörn til þess að sinna þeim hlutum. Það er verkefni þessara alþjóðlegu sveita sem eru í Afganistan.