135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[15:48]
Hlusta

Frsm. minni hluta utanrmn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hlýt að mótmæla því að hin einarða afstaða okkar til frumvarpsins, sem hér hefur áður orðið að umtalsefni, sé til komin vegna þess að við sjáum skyndilega einhver pólitísk tækifæri í slíku. Má ég minna hæstv. utanríkisráðherra á það hvernig 1. umr. um varnarmálafrumvarpið bar hér að? Ekki gafst neinn tími fyrir aðra en innvígða þingmenn stjórnarflokkanna sem höfðu fengið yfirferð yfir frumvarpið — því var dreift hér síðdegis á þriðjudegi, ef ég man rétt, um sexleytið, var komið hér á dagskrá klukkan hálfellefu á fimmtudegi og miðvikudagurinn var ansi þétt setinn. Það kann því kannski að vera, hæstv. ráðherra, að ekki hafi öllum gefist jafnt tóm til að lesa það, hvað þá á milli línanna.

Mig langar að gera athugasemdir við eitt í máli hæstv. ráðherra sem varðar þá spurningu mína hvort íslensk stjórnvöld gætu hugsað sér að líta til annarra átta en til hernaðarsamvinnu þegar um er að ræða öryggismál þjóðarinnar. Ég nefndi það áðan að eftir að herinn fór gafst hér mjög gott tækifæri til að ná samstöðu, meiri samstöðu en nokkru sinni á lýðveldistímanum, meðal þjóðarinnar í utanríkis- og öryggismálum. Það er alveg ljóst í mínum huga að slík samstaða hefði aldrei getað náðst undir merkjum hernaðar. Þess vegna þýðir ekki fyrir hæstv. ráðherra að benda á Norðurlöndin en meina Norðurlöndin sem eru í NATO. Það þýðir heldur ekki fyrir hæstv. ráðherra að benda á Evrópu og meina Evrópuríkin sem eru í NATO.

Málið er að við erum að tala um allt aðra (Forseti hringir.) samvinnu á öryggissviði en undir merkjum hernaðar.