135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

Búrfellsvirkjun.

427. mál
[14:45]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Búrfellsvirkjun er næststærsta virkjun landsmanna, var fullgerð árið 1969 og hóf rekstur í framhaldinu. Stöðin hefur heppnast ákaflega vel og verið þar góður rekstur í hartnær fjóra áratugi. Ég fékk þær upplýsingar hjá Landsvirkjun fyrir tveimur árum að endurstofnverð virkjunarinnar væri um 25 milljarðar kr. og hún hefði framleitt frá upphafi um 60 þús. GWst. af rafmagni. Það er mikil framleiðsla og til að reyna að meta hvað það skilar af sér í tekjum er nefnt til samanburðar að árið 2004 seldi Landsvirkjun um 7.500 GWst. og fékk fyrir það 13,5 milljarða kr.

Ef við ályktum út frá þessu má reikna út að fyrir 60 þús. GWst. sem stöðin hefur framleitt megi fá fyrir þær 108 milljarða kr., þ.e. fjórum sinni hærri fjárhæð en nemur endurstofnverði virkjunarinnar. Það er alveg greinilegt, jafnvel þó að þessar tölur séu bara ágiskun en ekki raunveruleg vitneskja um hvað hefur hafst í tekjur fyrir framleiðsluna á framleiðslutímanum, að stöðin hefur fyrir löngu borgað sig upp.

Þá vaknar spurningin: Hvers vegna hefur verð á rafmagni ekki lækkað til almennings sem hefur auðvitað borgað þessa stöð með því að kaupa rafmagnið, fyrst stóriðjan og síðan almenningur? Sú hugsun hefur hvarflað að mér hvort ekki væri komið að því að almenningur fengi að njóta þess að eiga gott raforkuver sem framleiddi raforku fyrir lágt verð og það endurspeglaðist í heimilisreikningum landsmanna og raforkureikningum almennra fyrirtækja.

Þess vegna hef ég, virðulegi forseti, til þess að fá fram frekari upplýsingar um þetta mál lagt fram til hæstv. iðnaðarráðherra eftirfarandi tvær spurningar:

Í ljósi þess að framleitt og selt rafmagn frá Búrfellsvirkjun hefur fyrir löngu greitt allan stofnkostnað virkjunarinnar, hvað er framleiðsla hennar stór hluti af raforkuþörf almenna markaðarins og á hvaða verði væri hægt að selja hverja kWst. ef miðað væri við að tekjur þyrftu aðeins að duga fyrir rekstri og viðhaldi en ekki stofnkostnaði?

Telur ráðherra ekki rétt að almenningur njóti raforkuframleiðslu afskrifaðra virkjana í eigu hins opinbera í lægra raforkuverði og hver er það sem nýtur góðs af þeim hagnaði sem augljóslega er af sölu raforku (Forseti hringir.) afskrifaðra virkjana?