135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

535. mál
[18:42]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna því eins og aðrir að fyrir þingið er komin þingsályktunartillaga um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda. Ég fagna því að hún sé ekki bara stjórnarmál heldur einnig rædd utan þings. Þetta er mál sem fær þinglega meðferð, fer inn í nefnd og þar gefst tækifæri til þess að ræða við hagsmunaaðila sem vinna að innflytjendamálum, leita umsagna og kalla í viðtöl. Ég á von á því, eins og umræðan hefur verið og miðað við hve margir eru á mælendaskrá, að umræðan verði lífleg í félags- og tryggingamálanefnd. Við munum vinna að endurbótum á þessari áætlun eftir því sem þörf þykir.

Það er grundvallaratriði að við vinnum út frá þeim markmiðum sem þarna eru nefnd, þ.e. mannréttindum, jafnrétti, umburðarlyndi, einstaklingsfrelsi og samstöðu. Þau atriði verður öll að hafa í huga þegar við vinnum með innflytjendur. Við höfum mörg hver, flest sjálfsagt, dvalið um skemmri eða lengri tíma erlendis og notið þjónustu annarra landa. Oft hefur okkur þótt sú þjónusta sjálfsögð hvort sem það hefur verið á Norðurlöndum eða annars staðar. Við viljum með sama hætti taka á móti því fólki sem kemur hingað hvort sem er til lengri eða skemmri tíma, til vinnu, náms eða búsetu. Við viljum að það njóti sambærilegra lífskjara og Íslendingar og að þess sé gætt að farið sé með innflytjendur og þá sem hingað koma til starfa eða búsetu eins og Íslendinga á allan hátt.

Á þessu hefur verið svolítill misbrestur. Það er mikilvægt að þessi þingsályktunartillaga og öll sú vinna sem fer fram í málefnum innflytjenda leiði til umbóta frá því sem verið hefur á undanförnum árum. Mikill fjöldi hefur komið til starfa og við reyndumst ekki nógu vel undir það búin að taka við öllum þeim hópi.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að fara yfir þessa þingsályktunartillögu eða einstök atriði hennar. Ég fæ tækifæri til þess í félags- og tryggingamálanefnd. En mig langar samt að ræða einn mikilvægan þátt vegna þess að mér finnst hafa gætt þess misskilnings í umfjölluninni hingað til að það sé ákveðin miðstýringarárátta í þeim hugmyndum sem hér koma fram. Það er rétt að ávallt þarf að gæta að því hvaða hlutverki ríkið gegnir í slíkum málum og að hve miklu leyti sveitarfélögin sinna verkefnum eða aðrir aðilar, þriðji geirinn, eins og það er kallað í þessari þingsályktunartillögu, sem vinnur sjálfstætt að eigin frumkvæði að málaflokknum.

Ég held að allir geri sér grein fyrir því að málefni innflytjenda verða ekki leyst af ríkinu. Þar þurfa allir að koma að. Skólarnir, leikskóli, grunnskóli og framhaldsskóli, hvort sem þeir heyra undir sveitarfélög eða ríki. Við getum talað um félög sem hafa gegnt gríðarlega miklu hlutverki og hafa mikla reynslu eins og Rauða krossinn. Við getum nefnt gott frumkvæði og mikla vinnu einkafyrirtækis á borð við Alþjóðahúsið og svo mætti áfram telja.

Það hefur verið mjög ánægjulegt að sjá með hvaða hætti menn hafa fundið ný og góð úrræði. Menn hafa tekið upp samstarf jafnvel foreldrahópa eða einstaklinga í samfélögunum sem hafa bókstaflega tekið að sér að bjóða fólk velkomið í samfélagið, leiða það til starfa í íþróttahreyfingunni o.s.frv.

Eftir sem áður held ég að óhjákvæmilegt sé að þeim hluta sem ríkið ætlar að halda utan um verði sinnt með formlegum hætti. Til eru eldri ályktanir um Fjölmenningarsetur og um þær er fjallað í þessu máli sem eðlilegt er, m.a. í kafla á blaðsíðu 10 í þingsályktunartillögunni þar sem fjallað er um Fjölmenningarsetur sem sé byggt á grundvelli ályktunar frá Alþingi frá árinu 2000. Gert er ráð fyrir að tryggja að menn eigi aðgang að upplýsingum og geti safnað upplýsingum frá stofnunum, aðilum og fyrirtækjum sem vinna á sviðinu, kannski undir einn vef. Fjölmenningarsetrið mundi sinna upplýsingamiðlun til einstaklinga og sjái um samræmingu og ráðgjöf.

Það þýðir ekki að þeir eigi að veita ráðgjöfina heldur haldi utan um verkefnin og sjái til þess að þeim sé sinnt. Ég held að það sé of áhættusamt að treysta á að ólík fyrirtæki, einstaklingar og aðrir geri þetta. Það mun örugglega leiða til þess að enginn, og ekki er ráðuneytið burðugt til þess, héldi utan um, stoppaði í götin og tryggði jafnræði eða að fylgdi málum vel eftir.

Það er engin tilviljun að Fjölmenningarsetrið er staðsett á Vestfjörðum. Það er aðeins eitt Fjölmenningarsetur þótt hér hafi menn talað um slík setur í fleirtölu. Það er bara eitt Fjölmenningarsetur og eru engin áform um að setja á stofn fleiri þótt hugsanlega gætu verið tengiliðir úti á landi, eins og er á Austfjörðum, sem er raunar aðili að Fjölmenningarsetrinu en staðsettur annars staðar. Þar er um að ræða störf án staðsetningar. En í raun er eitt setur sem hefur þetta hlutverk. Ég held að það sé mjög mikilvægt að það fái að halda þeim sessi. Í því felst ekki að fela slíkri stofnun að sjá um sjálf verkefnin heldur er þriðji geirinn mjög mikilvægur. Allt það starf sem þar hefur unnist og sú gerjun sem þar hefur átt sér stað, eins og kom fram hjá hv. þm. Ólöfu Nordal, á einmitt að lyfta þessum geira og hjálpa til þess að taka frumkvæði og sinna verkum sínum. Til þess er Fjölmenningarsetrið mjög mikilvægt.

Auðvitað hafa ýmsir farið af stað og viljað eigna sér þetta hlutverk. Það hefur verið ákveðin togstreita, ég ætla bara að viðurkenna það, á milli Fjölmenningarsetursins og Alþjóðahússins sem þarf auðvitað að eyða. Mér finnst því eytt hér með þingsályktunartillögunni sem í engu skerðir mikilvægi hvors fyrir sig.

Einnig hafa komið upp hefðbundnar umræður um að Fjölmenningarsetrið sé statt á Vestfjörðum og sé ekki eins aðgengilegt fyrir alla. En það ýtir undir hlutverkið sem við erum að tala um að Fjölmenningarsetrið sinni. Það á ekki að vera í miðjunni eða að þangað eigi allir að koma og hitta fólk. Það eru aðrir sem sjá um það. Þetta er samræmingaraðilinn sá sem sér um upplýsingamiðlun og þar af leiðandi á þetta vel heima hvar sem er. Og eins og ég sagði áðan er eðlilegast að þetta sé statt á því svæði sem hefur haft innflytjendur til áratuga. Þar er mikil reynsla af slíkum málum og þar vita menn nákvæmlega hvernig á að skipa málum þótt ekki megi gera lítið úr því að einnig þarf að sækja reynslu frá útlöndum.

Ég fagna þessari tillögu og ætla að sinni ekki að fara dýpra í einstök atriði en þetta. Ég fagna því að þetta kemur þessa leiðina af því að þá hafa allir möguleika á að koma með athugasemdir og ábendingar til félags- og tryggingamálanefndar og óska eftir viðtali. Við getum með þeim hætti unnið áfram og bætt þessa áætlun. Þessu fylgir langur minnislisti og eflaust er margt sem þarf að bæta við. En við skulum hafa í huga að hversu vel sem ríkið sinnir þessu þá verður þjónustan sem sveitarfélögin veita, ýmis frjáls félög, smærri fyrirtæki og verkalýðsfélög, sem hafa gegnt gríðarlega miklu hlutverki, algjörlega ómissandi fyrir innflytjendur.