135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[18:33]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þetta er orðin þó nokkur umræða og hef ég náð að fylgjast með henni að mestu leyti a.m.k. á seinni sprettinum. Margt hefur verið vel og gáfulega sagt og ætla ég ekki að tyggja það upp sérstaklega sem aðrir hafa sagt á undan mér, og ég er eftir atvikum sammála. En nokkur atriði þessa máls vekja mig þó til umhugsunar.

Ég dreg ekki í efa að í frumvarpinu er margt ágætt sem snýr að skipulagi mála í opinberum háskólum, annað orkar tvímælis. Ég fór hins vegar aðeins að velta því fyrir mér hvers vegna frumvarpið væri sett upp með þessum hætti. Það er sett upp sem einhvers konar rammalög um opinbera háskóla og falla þá úr gildi þau sérlög sem til staðar eru — um hvað? Fyrst og fremst um tvo háskóla, Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. (Gripið fram í.) Háskólinn á Akureyri er hvort sem er að hverfa inn í Háskóla Íslands, hv. þingmaður, þannig að ekki þarf að hafa áhyggjur af því meir. Mér skilst meira að segja að Listaháskólinn, þó að lög um listmenntun á háskólastigi eigi að falla niður við gildistöku þessara laga, muni sem sjálfseignarstofnun heyra undir hin almennu háskólalög.

Ég er ekki sammála því að þetta sé rétt að gera. Það kann vel að vera að sameina megi í eina löggjöf lagarammann sem hinir opinberu háskólar starfa eftir en hvers vegna þarf að fella nafn Háskóla Íslands, sem eru tæpra 100 ára, svo munar einu ári, úr lögum og hvers vegna þarf að fella niður sérlög um Háskólann á Akureyri, þ.e. nafnið? Er það vegna þess að ekki er sjálfgefið að þessar stofnanir starfi áfram sem sjálfstæðir opinberir háskólar? Er þörfin svona mikil af því að við séum með einhverja fleiri tugi almennra opinberra háskóla sem alla þurfi að sameina í einni rammalöggjöf? Nei, skólarnir eru tveir. Frá og með miðju sumri eru þeir tveir: Háskóli Íslands, flaggstofnun æðri menntunar í landinu, elsta háskólastofnunin og stolt þjóðarinnar á sínum tíma — um hann voru sett lög árið 1909 og hann tók til starfa 1911 (Gripið fram í: Og var m.a. í þessu húsi.) — já, og var m.a. í þessu húsi. Er það þá orðið sérstakt markmið að nafnið Háskóli Íslands komi hvergi fyrir í lögum? Er ég eitthvað að misskilja þetta? (Menntmrh.: Fjárlögum, alltaf í fjárlögum.) Fjárlögum, já, meðan hann er til. En reyndar er það ekki þannig því að hinir snjöllu höfundar frumvarpsins hafa séð við ætluninni og passað upp á það að Háskóli Íslands er á einum stað í frumvarpinu. Hann læðist inn í 25. gr., um þjónustusamninga — sennilega eru það mistök — en þar stendur, með leyfi forseta:

„Háskólaráði er heimilt að semja við stúdenta, samtök þeirra og félög, hollvinasamtök, einstaklinga, samtök þeirra og fyrirtæki eða opinberar stofnanir um að taka að sér þjónustu fyrir hönd Háskóla Íslands …“ — Þarna er hann. En það er í eina staðnum og það er sennilega fyrir mistök.

Ég segi einfaldlega: Það eru full rök til þess að Alþingi hafi það í lögum að Háskóli Íslands skuli vera til og heita Háskóli Íslands og starfa. Það eru líka full rök fyrir því að Háskólinn á Akureyri, hinn stóri almenni háskólinn með þá miklu sérstöðu að starfa á landsbyggðinni, sé líka í lögum. Ég vil ekki sjá að nafn Háskólans á Akureyri standi hvergi í lögum frá og með miðju þessu ári eða hvað það nú er. Það er ekkert vandamál að umorða 1. gr. á þann veg, ef ég má taka það að mér í ræðustólnum, að segja: Lög þessi gilda um Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og aðra háskóla sem reknir eru sem opinberir háskólar o.s.frv. Þá er a.m.k. ekki verið að leggja formlega niður nöfnin á þessum tveimur merku stofnunum í lögum. Og ég spyr: Angrar það einhvern þó að það fái að standa áfram a.m.k. á einum stað í lagasafninu að til sé Háskóli Íslands eins og verið hefur í tæp 100 ár og að Háskólinn á Akureyri, sem mönnum er eðlilega annt um, og vilja sjá að hafi tryggan og öruggan sess í okkar stjórnskipun, sé líka til staðar í lögum? Ég legg því til a.m.k. þessar breytingar á málinu þegar í stað.

Í öðru lagi verð ég að segja að ég fæ ekki mikinn botn í þær breytingar sem á að gera á samsetningu háskólaráðs í 6. gr., eða háskólaráða í opinberum háskólum, og er ég þá sérstaklega að hugsa um Háskóla Íslands. Þar get ég í sjálfu sér að mestu leyti gert ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar að minni. Ef ég hef tekið rétt eftir áherslu hans eða afstöðu í málinu þá er hann ósammála því að sú staða geti komið upp að aðilar utan háskólans nái nokkurn tíma meiri hluta í háskólaráði. Það er ég líka, mér finnst það fráleitt, mér finnst það afturför. Mér finnst að ekki eigi að rýra hlut nemenda eins og á að gera með umræddum breytingum og í andstöðu við þá. Hvað vinna menn með því? Hefur það verið eitthvert vandamál að nemendur við Háskóla Íslands ættu a.m.k. tvö sæti í háskólaráði þannig að tvær meginfylkingar sem þar hafa boðið fram, eða við skulum segja tveir stærstu hóparnir sem sameinast um framboð til háskólaráðs, eigi kost á því að fá menn kjörna? Ég hef ekki orðið var við að það væri mikið vandamál. Ég kaupi ekki þær röksemdir að það sé svo nauðsynlegt fyrir háskólann að fá aðila utan frá til að stjórna sér að jafnvel eigi að fórna því að háskólinn sjálfur, starfsmenn hans, kennarar og nemendur og eftir atvikum rektor, ef hann er þá þar áfram, séu með meiri hluta í háskólaráði. Þannig finnst mér ekki að það eigi að vera.

Ég lít á það sem afturför í akademísku tilliti og hvað varðar starfsmannalýðræði að bjóða upp á hættuna á hinu — hún er til staðar þegar maður er loksins búinn að berjast í gegnum þessa torræðu samsetningu á kosningum, sérstaklega 4. tölul. í 6. gr. Það er nokkuð undarlegt því í byrjun skulu tveir fulltrúar valdir inn í ráðið af þeim fulltrúum sem fyrir eru og síðan eiga þeir sem kosnir verða inn á grundvelli 1., 2. og 3. töluliðar að sameinast um að velja hina í framtíðinni. Menntamálaráðherra fær þarna inn tvo menn og þá þarf ekki flókna útreikninga til að sjá að sú staða blasir við og sú hætta er til staðar. Ef t.d. einn af einstaklingunum þremur sem þarna eru þá inni, rektor, fulltrúi háskólasamfélagsins og fulltrúi nemenda, er á einhvern hátt þannig settur að hann verður að láta undan þrýstingi hinna utanaðkomandi aðila, fulltrúa menntamálaráðherra, og mynda meiri hluta með þeim um að taka inn einhverja tvo menn utan háskólasamfélagsins er meiri hluti þeirra sem eru innan skólans fallinn í háskólaráði. Þetta er alveg út í hött að mínu mati og á ekki að bjóða upp á slíkt. Þetta mætti t.d. leysa með því einfaldlega að hafa áfram tvo fulltrúa, annars vegar frá háskólasamfélaginu og hins vegar frá nemendum. Þeir eru þá jafnmargir og fulltrúarnir sem menntamálaráðherra má skipa og þessi hætta kemur ekki upp eða a.m.k. miklu síður.

Það getur verið markmið í sjálfu sér, og ágætt að hafa það opið, að það komi einhverjir aðilar utan að til ráðuneytis og samstarfs inn í háskólaráð. Ég er alls ekki að gera lítið úr því án þess að ég haldi að það geri endilega kraftaverk. Almennt held ég að menn séu alveg menn til að stjórna sér sjálfir í háskólum. Er ekki til eitthvað sem heitir akademískt frelsi? Gengur það ekki út frá því að háskólar eigi í grófum dráttum að ráða sér sjálfir? Þeir séu best til þess fallnir og aðrir hafi yfirleitt ekki meira vit til þess að ráða þeirra ráðum en þeir sjálfir. Það hélt ég. Mér finnst það vera afturför ef þetta verður svona sett upp og ræð frá þessu. Þetta er ekki í þágu starfsmannalýðræðis, svo mikið er víst — ef menn hafa einhvern tíma heyrt það hugtak í ríkisstjórninni — og þetta er ekki í þágu akademísks frelsis eins og ég sé það.

Þá að fjármögnunarkaflanum. Ég get líka tekið undir það að ég staldra við 18. gr., um innritun. Ég hef ekki haft tíma til að bera hana nákvæmlega saman við núgildandi ákvæði í lögum en mér finnst þetta heldur þrengslalegt og það er eins og andi gömlum gusti af numerus clausus í þessu öllu saman, það þurfi að vera hægt að skrúfa þetta heldur saman og pakka þessu inn. Ég vildi auðvitað frekar sjá að við værum fyrst og fremst með áherslur sem lytu að því að greiða götu fólks inn í háskóla og öllum hópum samfélagsins. Þarna mætti að mínu mati vera ákvæði sem væri sérstaklega hugsað til þess að auðvelda hópum, sem ástæða væri til að hafa áhyggjur af að ættu ekki hlutfallslega sína fulltrúa í háskólanámi, að koma þar inn. Ég er kannski ekki að segja að það þurfi beinlínis mismunarákvæði eins og víða eru þekkt í háskólum til að auka hlut — hér áður voru það kannski konur, frumbyggjar, innflytjendur eða einhverjir slíkir. Þetta er vel þekkt í háskólasamfélaginu vestan hafs. Það stendur væntanlega ekki á Sjálfstæðisflokknum að taka eitthvað þaðan, ef það kemur frá guðs eigin landi, að einhver slík ákvæði væru hugsuð til þess að segja: Við viljum hafa alla með þannig að fólk úr öllum geirum samfélagsins geti komið í háskóla og aflað sér háskólamenntunar. Ég minni á að það að afla sér háskólamenntunar er ekki bara einhver — það á ekki að hugsa þetta eins og útungun á tannhjólum í gangvirki framleiðslusamfélagsins. Það snýst um mannréttindi að hver og einn hafi frjálsborinn rétt til þess að mennta sig og þroska hæfileika sína. Það er aðalatriðið. Þess vegna er jafnrétti til náms heilagra en flest annað í mínum huga. Það tengist grundvallarmannréttindum og aldrei á að selja það að réttur hvers og eins til að þroska hæfileika sína, afla sér þekkingar og mennta sig á að vera heilagur.

Þá erum við komin að skólagjöldunum. Þau tengjast þessu nefnilega líka. Það þýðir ekki að vera að ræða um þau eins og eitthvert hlutlaust fyrirkomulagsatriði sem snúist bara um fjármögnun háskóla. Halda menn að það verði til peningar í samfélaginu, að þeir komi af himnum ofan ef þeir heita skólagjöld? Nei, það kostar um það bil það sama að reka skólana. Spurningin er bara hvernig það er borgað. Ég hef varla heyrt aðra eins vitleysu og þá að eina leiðin fyrir Háskóla Íslands til að komast í röð fremstu háskóla sé að fá að taka upp skólagjöld. Af hverju? Er það vegna þess að það er borin von að um það verði pólitísk samstaða á Íslandi að búa svo vel að Háskóla Íslands, og láta hann fá þannig fjárveitingar, að hann geti af þeim rammleik orðið í hópi bestu háskóla í heimi? Það er það sem menn eru að segja, að ekki sé pólitískur vilji til að leggja úr opinberum sjóðum nægjanlegt fjármagn til opinberu háskólanna til að þeir geti verið í fremstu röð. Það er þar sem bresturinn verður. Ekki vegna þess að það sé efnaleysi í samfélaginu, ekki vegna þess að ekki sé samstaða um að menntun sé ein besta fjárfesting sem við getum ráðist í — án þess að ég vilji skrifa upp á það, samanber það sem ég sagði áður, að fyrst og fremst eigi að líta þannig á hana. Það er ekki bara um það sem þetta snýst. Spurningin er um pólitískan vilja.

Viljum við leggja það mikla fjármuni í menntum að við getum eignast menntastofnanir sem skara fram úr og eru í fremstu röð eins og við að mörgu leyti höfum gert? Menn hafa gert ótrúlega mikið úr litlu í íslenska háskólasamfélaginu og í það heila tekið er unnið þar mjög metnaðarfullt og gott starf. En það hefur vissulega verið unnið við erfiðar aðstæður oft á undanförnum árum. Auðvitað hefur manni runnið það til rifja hversu hin gamla og merka stofnun, Háskóli Íslands, hefur verið sveltur mörg undanfarin ár eða hvernig vöxtur og uppbygging Háskólans á Akureyri hefur nú verið bremsuð niður nokkur ár í röð með því að hann hefur ekki fengið fjárveitingar í samræmi við aðsókn og eftirspurn eftir þjónustu hans, t.d. fjarkennslu og öðru slíku. Vissulega hefur orðið þar bót á ákveðnum hlutum eins og rannsóknarsamningarnir. Þess ber að geta að það var að sjálfsögðu skref í rétta átt þegar þeir voru gerðir, fyrst við Háskóla Íslands og síðan eftir allnokkurn barning hafðist í gegn samningur, reyndar að nokkru leyti með stuðningi utanaðkomandi aðila, við Háskólann á Akureyri sem varð til góðs að sjálfsögðu.

Aftur að skólagjöldunum. Það er fullkomlega eðlilegt að menn ræði þau hér. Samfylkingarfólk má ekki fara á taugum þó að þeim sé haldið við efnið í því. Það má ekki vera þannig. Við erum að reyna að hjálpa ykkur til að standa í lappirnar í þessu. En fáránleiki málsins verður náttúrlega ljósastur þegar haft er í huga að LÍN borgar svo skólagjöldin að uppistöðu til, lánar fyrir þeim. Hvaða rugl er þetta þá í opinberu háskólakerfi að það verði til einhverjir nýir fjármunir sem lyfti þessu öllu á hærra plan með því að menn fái lánað fyrir skólagjöldum í opinberum námslánasjóði sem er að helmingi byggður á beinum framlögum ríkisins? Ef ég man þetta rétt er það þannig að LÍN þarf um helming af tekjum hvers árs frá ríkissjóði til að standa undir skyldum sínum. Það segir allt sem segja þarf um þann þátt málsins, herra forseti.