135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

staðfest samvist.

532. mál
[22:07]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég svaraði þessu í rauninni áðan í svari við andsvari hv. þingmanns sem hér tók til máls en ég vil bara ítreka það að ég tel að þegar þessi breyting er í höfn verði tímabært að ræða það mál betur. Hvort þetta eigi heima í einum lagabálki, ég treysti mér ekki til að gefa neinar slíkar yfirlýsingar, hvorki varðandi þetta kjörtímabil né næsta. Það er ekki í minni hendi.

Hitt er annað mál að ég tel mikilvægt að um allt þetta mál sé gott samstarf við kirkjuna. Ég tel mjög mikilvægt að kirkjan skuli hafa náð sameiginlegri niðurstöðu á kirkjuþingi um frumvarpið sem nú er verið að ræða. Ég tel að við verðum að fá reynslu af framkvæmd þessara laga áður en lengra er gengið. Eins og ég sagði áðan þá skiptir það kannski ekki öllu máli fyrir viðkomandi einstaklinga, eða þá sem hlut eiga að máli, hvort fyrirkomulagið er þannig að sérstök lög séu um staðfesta samþykkt. Ég tel ekki að það skipti grundvallarmáli, alla vega ekki varðandi réttarstöðu viðkomandi.