135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[16:46]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég túlka þetta svar sem svo að hv. þingmaður telji að það komi pólitískt svar með pólitísku innihaldi um hvað eigi að gera. Gott og vel. En ég vil benda á að það hefur verið stefna Framsóknarflokksins um langt skeið að sjávarútvegsauðlindin sé sameign þjóðarinnar. Það stendur líka í 1. gr. laga um fiskveiðistjórnarkerfið. Við vildum fá þetta inn í stjórnarskrá og það var samið um það við Sjálfstæðisflokkinn á síðasta kjörtímabili og það var í stjórnarsáttmálanum eða stefnuyfirlýsingunni. Það mál náðist ekki í höfn. Menn hafa deilt um hverjum sé þar um að kenna en sjálfstæðismenn voru ekki að flýta sér í því máli, alls ekki. Nú hefur Samfylkingin líka náð þessu inn í stefnuyfirlýsinguna. Gott, mjög gott, og ég vona að Samfylkingin nái þessu máli í höfn. Við munum gera það sem við getum til að aðstoða við það. Við flytjum einmitt mál um það seinna í dag. Hv. þm. Guðni Ágústsson er 1. flutningsmaður að því máli að auðlindirnar verði sameign þjóðarinnar, ákveðnar auðlindir. (Forseti hringir.) Ég vona að Samfylkingin gefi það ekki eftir, þó að ég viti að hún muni þurfa að gefa ýmislegt eftir í stjórnarsamstarfinu vona ég að þetta verði ekki gefið eftir og við munum reyna að hjálpa henni við það.