135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[17:46]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki of seint að iðrast fyrir hæstv. ráðherra Samfylkingarinnar þó að hann hafi hlaupið út undan sér og skriðið upp í bólið hjá íhaldinu, hann tekur þar ekki stærra pláss en Framsókn gerði áður og lætur lítið á sér kræla. (Gripið fram í: Næstsætasta stelpan.) Næstsætasta stelpan á ballinu fór upp í. En það er aldrei of seint að iðrast.

Ég held að það sé rétt varðandi sjávarútvegsmálin að Vinstri grænir og Samfylkingin væru mun betri samstarfsaðilar til að ná fram breytingum í sjávarútvegsmálum. Mér heyrist Samfylkingin ekki ætla að ná neinum breytingum fram með Sjálfstæðisflokknum. Erum við þó minnug digurra orða fyrir síðustu alþingiskosningar. Hér er stefna vinstri grænna í sjávarútvegsmálum mjög vel útfærð. Hún hefur verið til í nokkur ár og stendur óhögguð áfram, herra forseti. Það sem mannréttindanefndin finnur fyrst og fremst að er framsalið á fiskveiðiheimildum, nýtingarréttinum sem úthlutað var eftir ákveðnum hætti sem er umdeilanlegur. Mannréttindanefndin gagnrýnir það að viðkomandi sem fékk þann rétt skuli leigja hann eða selja hann burt frá sér án þess að nýta hann. Meginókostur kvótakerfisins er þetta framsal sem mannréttindanefndin er að gagnrýna og í tillögum vinstri grænna er einmitt tekið á þessu máli, á þessu framsali.

Þess vegna ætla ég að leyfa mér, herra forseti, að afhenda hæstv. iðnaðarráðherra stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í sjávarútvegsmálum sem er ein traustasta og best (Forseti hringir.) byggða stefna í sjávarútvegsmálum sem nokkur þingflokkur hefur lagt fram á Alþingi, fullyrði ég.