135. löggjafarþing — 98. fundur,  6. maí 2008.

mannekla á velferðarstofnunum.

[14:35]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir að vekja athygli á þessu máli hér í sölum Alþingis enda er um mikilvægt mál að ræða. Ég get ekki tekið að öllu leyti undir að mjög hart hafi verið gengið að almannaþjónustu í landinu á síðustu árum, raunframlög til heilbrigðis-, mennta- og félagsmála hafa verið aukin um tugi prósenta á síðustu árum og í raun hefur samneyslan sem hlutfall af þjóðarframleiðslu ekki verið hærri síðan 1993. Við höfum ekki varið eins háu hlutfalli af sameiginlegu skattfé almennings og núna síðan árið 1993. Það er náttúrlega engin hægrimennska í því, hæstv. forseti.

Hins vegar snýst þetta mál um forgangsröðun. Menn hafa rætt um það á mörgum undanförnum árum og gengið mjög takmarkað í að minnka svokallaðan launamun kynjanna eða kynbundinn launamun. Staðreyndin er sú að í umönnunarstéttum eru yfir höfuð konur, konur sem sinna sjúkum og börnum, og þetta hlýtur að vekja okkur til umhugsunar um mat okkar á störfum í samfélaginu.

Þeir sem handfjatla peninga hjá ríkinu fá margfalt hærri upphæðir í launaumslög sín um hver mánaðamót en þeir sem kenna börnunum okkar eða sinna sjúkum og öldruðum. Ég held að það sé tími til kominn að menn endurskoði þessi gildi í íslensku samfélagi. Menn hafa talað um að við horfum mikið til mammons og ekki eins á þessi mannlegu gildi. Ég held að við þurfum öll að líta í eigin barm í þeim efnum og ég fagna því að stjórnvöld ætli sér að minnka kynbundinn launamun. Það segir okkur að þá þarf að hækka kjör þeirra stétta sem hugsa um börnin okkar og aldraða og fleiri aðila og ríkisstjórnin að sýna að hún ætli sér eitthvað í þeim efnum, hún hefur gefið fyrirheit um það (Forseti hringir.) og nú er að standa við stóru orðin, hæstv. forseti.